Bjóst alltaf við hörkuleik

Baldur ór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, kemur góðum ráðum til leikmanna sinna í leiknum gegn sprækum Breiðablikum. Mynd: Hjalti Árna.
Baldur ór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, kemur góðum ráðum til leikmanna sinna í leiknum gegn sprækum Breiðablikum. Mynd: Hjalti Árna.

Einn af skrítnustu körfuboltaleikjum sem fram hafa farið í Síkinu á Sauðárkróki var háður síðasta fimmtudag þegar Tindastól tók á móti Breiðabliki í Subway deildinni en um hörku leik var að ræða með miklar sveiflur beggja liða. Eftir að hafa kitlað met um flest stig skoruð í fyrri hálfleik misstu Stólarnir flugið og máttu teljast heppnir að landa sigrinum í lokin. Breiðabliki var ekki spáð góðu gengi hjá forráða- og leikmönnum Subway-deildarinnar fyrir tímabilið en Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stóla, segist alltaf hafa búist við hörkuleik.

„Vanalega þegar það er komið í 20 stiga mun þá nærðu annaðhvort að drepa leikinn eða hitt liðið tekur „run“ og fær trú á því að þeir geti komið til baka. Því miður klikkuðum við á opnum sniðsskotum og þeir fengu trú á sér í þetta skiptið,“ útskýrir Baldur þá miklu viðsnúninga sem varð hjá liðunum milli leikhluta.

Strax varð ljóst að eitthvað mikið myndi gerst í þessum leik en eftir tveggja mínútna leik og jafna stöðu tók Tindastóll öll völd á vellinum næstu mínútuna og gerðu níu stig í röð og komu Stólum í 15-6. Kom þá smá kennslustund um hve mikilvæg leikhlé geta verið en þjálfari Blika, Pétur Ingvarsson, tók eitt slíkt og stappaði stálinu í sína menn sem náðu að komast þremur stigum yfir meðan Stólar settu ekki einn bolta í körfuna og staðan 15:18 um miðjan fyrsta leikhluta. Endaði hann með forystu heimamanna 33 – 31.

Eftir nokkuð jafnan leik fyrri hluta annars leikhluta stungu heimamenn af og spændu úr stöðunni 46:44 í 75:54, skoruðu 42 meðan gestirnir settu niður 23 sem getur alveg talist ásættanlegt í venjulegum leik.

Í seinni hálfleik var komið að gestunum að rífa sig í fluggírinn því þeir tálguðu forskot Stóla jafnt og þétt niður með fínum leik meðan ekkert gekk hjá heimamönnum. Í þeim leikhluta skoruðu Blikar 28 stig gegn 16 stigum Stóla og staðan að honum loknum 91:82.

Nú var farið að fara um áhorfendur í Síkinu og menn ekki eins borubrattir og í hálfleik, vonuðust samt til að Stólar hristu af sér slyðruorðið og kláruðu leikinn með sæmd. Þeir kláruðu vissulega leikinn með sigri og sæmdin var alveg fyrir hendi en Breiðablik hljóta að fá prikið fyrir gríðarlega góða frammistöðu og áræðni að hafa snúið leiknum sér í vil en þeir unnu þennan leikhluta líkt og hinn fyrri, með 35 stigum gegn 29. Litlu mátti muna að Blikar færu með sigur af hólmi en líklega má segja að Everage Lee Richardson, leikmaðir liðsins, hafi klúðrað því færi eftir að hann fékk tæknivillu fyrir munnsöfnuð eftir tvö vítaskot hvar hann minnkaði muninn í tvö stig 116:114 þegar um hálf mínúta var eftir. Fyrir vikið fengu heimamenn eitt vítaskot sem Anthony Bess hitti úr og jók muninn í þrjú stig og héldu boltanum.

Þá fóru í hönd einhverjar lengstu 23 sekúndur sem undirritaður hefur lifað. Til allrar óhamingju misstu Stólar boltann út af vellinum og Blikar í færi að jafna leikinn með þriggja stiga körfu sem Danero Thomas reyndi en hitti ekki. Stólar með boltann og þrjár sekúndur eftir af leiknum en strax brotið á Sigtryggi Arnari sem fór á vítapunktinn þar sem Stólar voru komnir í bónus og gerði út um leikinn, setti bæði skotin niður. Blikar taka leikhlé í stöðunni 119:114 en tíminn ekki nægur fyrir frábært Blikalið að jafna og fleyta leiknum í framlengingu.

Breiðabliki var spáð döpru gengi í deildinni í vetur en þeir gáfu Stólum alvöru leik og sýndu það er þeir verða erfiðir viðfangs hverju liði í vetur..

„Já ég bjóst alltaf við hörkuleik, þeir eru með góða sóknarmenn með mikla reynslu úr deildinni. Þeir verða erfiðir í vetur ef þeir hafa trú á sér,“ segir Baldur Þór, þjálfari Stóla sem undirbjó liðið svipað og fyrir aðra leiki..

„Við fórum yfir hvað hver og einn leikmaður hjá þeim vill gera í sókn og hvaða hæfileika þeir hafa. Förum yfir sóknarplanið þeirra og setjum upp varnarplan gegn því. Förum yfir varnarplanið þeirra og setjum upp sóknarplan gegn því.“ Baldur segir sama undirbúning verða hjá liðinu í komandi leik gegn Grindavík nk. fimmtudag en með breyttum áherslur þar sem þeir spila allt öðruvísi.

Tindastóll er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki og situr a toppi deildarinnar ásamt Keflavík og Njarðvík með sex stig.

 Myndir frá leiknum má sjá HÉR

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir