Bjarni kynnti starfsemi Landgræðslu
Bjarni Maronsson , héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins fyrir Húnavatnssýslur og Skagafjörð mætti á dögunum til fundar við Landbúnaðarráð Húnaþings vestra. Gerði Bjarni á fundinum grein fyrir starfsemi Landgræðslu ríkisins.
Kynnti Bjarni meðal annars þá ákvörðun sem tekin var í upphafi árs 2008 um gerð héraðsáætlana fyrir öll starfssvæði landgræðslunnar. Kynnti hann frumdrög þeirrar skýrslu fyrir Norðurland vestra. Óskaði Bjarni eftir því að landbúnaðarráð færi yfir frumdrögin og kæmi á framfæri ábendingum um atriði sem betur mættu fara. Markmið áætlunarinnar er m.a. að marka framtíðarsýn og megináherslur í landgræðslumálum á hverju héraðssetri en hún er einnig hugsuð sem tæki til að efla samráð og samvinnu við heimamenn og auka jafnvægi og ábyrgð þeirra við forgangsröðun verkefna. Héraðsáætlun gefur yfirlit um stöðu landgræðslumála á hverju afmörkuðu svæði og fjallar um alla þætti er tengjast verksviði landgræðslunnar innan hvers svæðis. Einnig kynnti Bjarni verkefnið „Bændur græða landið“ en í Húnaþingi vestra eru 19 bændur sem taka þátt í verkefninu sem lítur að uppgræðslu lands á eignarlöndum umræddra bænda. Bjarni gat um að jarðvegsrof og landeyðing telst óverulegt vandamál í Húnaþingi vestra því Vestur-Húnavatnssýsla er best gróna sýsla landsins en um 1.838 ferkílómetrar eða rúm 70% flatarmáls sveitarfélagsins telst gróið land. Landbúnaðarráð samþykkir að senda fjallskiladeildum í sveitarfélaginu frumdrög héraðsáætlunar landgræðslunnar til kynningar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.