Bjarni Jónsson um jarðgangagjald: hugnast illa mismunun eftir búsetu
„Mér hugnast illa hverskyns gjaldheimta af samgöngum sem mismunar fólki eftir búsetu. Til þess hefur innviðaráðherra ekki sérstakar heimildir svo ég viti til og slíkt hefur ekki verið rætt í tíð þess þings sem nú situr eða samgöngunefnd alþingis sem ætti að véla um slíkar ákvarðanir“ segir Bjarni Jónsson alþm. um áform um gjaldtöku af umferð um jarðgöng.
Bjarni segir nú þegar séu margvísleg gjöld lögð á íbúa landsins til að standa undir samgöngubótum og uppbyggingu vega og samgöngumannvirkja. Þau gjöld hafi á undanförnum árum ekki skilað sér sem skyldi í viðhald og uppbyggingu vega eins og flestir þekkja sem ferðast hafa um landið, ekki síst þeir sem búa á þeim svæðum landsins þar sem samgöngubótum og viðhaldi vega hefur verið verst sinnt.
TVÖFÖLD GJALDTAKA
„Það að fara t.d að taka upp tvöfalda gjaldtöku, leggja sérstakar nýjar álögur á Vestfirðinga, íbúa Akranes og aðra íbúa á landsbyggðinni sem verða að fara um jarðgöng, mörg daglega vegna vinnu og til að sækja þjónustu er ekki í anda byggðajafnréttis, ekki síst þegar í hlut eiga jarðgöng sem búið er að borga upp. Takmörkuð gjaldtaka af nýjum jarðgöngum eða umfangsmiklum samgöngumannvirkjum í almannaeigu til að flýta gerð þeirra er er hinsvegar, eitthvað sem eðlilegt er að sé rætt og sú umræða hafi þá sinn rétta feril í gegnum alþingi og fagnefndir þess.“
Að sögn Bjarna hefur það hefur verið stefna VG að grunnviðir eins og samgöngukerfi landsmanna sé rekið á félagslegum grunni og það sé mikilvægt að hyggja að félagslegri stöðu fólks, búsetu og byggðaöryggi, svo sem tækifærum til að sækja sér nauðsynlega læknisþjónustu.
ENGIN UMRÆÐA INNAN STJÓRNARFLOKKANNA
„Það er ekki nýtt að núverandi innviðaráðherra lýsi áhuga sínum á og tali fyrir víðtækum veggjöldum. Slíkt hefur af og til heyrst úr þeim ranni undanfarin ár. Það er hinsvegar ekki á valdi innviðaráðherra að ákveða einhliða að gjaldtaka verði tekin upp í öllum jarðgöngum landsins eins og ætla mætti af fréttum af tilkynningu hans þess efnis.
Enginn slík umræða hefur mér vitanlega farið fram innan stjórnarflokkanna á þingi, en jákvæð umfjöllun á þeim vettvangi og um útfærslur, hlýtur að vera forsenda þess að Innviðaráðherra fari fram með þannig mál og það hljóti þinglega meðferð. Heppilegra væri því að spara yfirlýsingar um slíkt og frumvarp þess efnis, þangað til yfirleitt liggur fyrir að slík áform njóti stuðnings.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.