Bjarni Jóns boðar til fundar í umhverfis- og samgöngunefnd vegna Siglufjarðarvegar
Siglufjarðarvegur um Almenninga hefur verið talsvert í umræðunni síðustu daga en veginum var lokað í nokkra daga í kjölfar mikils vatnsveðurs og skriðufalla. Komið hefur fram í fréttum að vegurinn hafi færst fram um 14 sm í regnveðrinu. Bjarni Jónsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, hefur boðað sérstakan fund í nefndinn nk. mánudag um alvarlegt ástand Siglufjarðarvegar og þá stórhættu sem þar hefur skapast og ennfremur stöðu undirbúnings nýrra jarðgangna.
Á fundinn eru boðuð sveitarfélögin Fjallabyggð og Skagafjörður ásamt Vegagerðinni. Bjarni skoðaði í dag aðstæður með Jóhanni K. Jóhannssyni slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar og fór yfir stöðuna með honum og Sigríði Ingvarsdóttur bæjarstjóra. Bjarni segir ljóst að flýta þurfi eins og kostur er gangnagerð á milli Fljóta og Siglufjarðar.
Bjarni tjáði Feyki í samtali að hann mæti stöðuna, sem kom upp fyrir nokkrum dögum síðan, grafalvarlega og mikla hættu hafa skapast áður en veginum var lokað vegna skriðufallanna. Þá haldi hlíðin áfram að skríða í sjó fram af jafnvel enn meiri þunga og hlutar vegarins geti hvenær sem er farið. Ingibjörg Ísakssen þingmaður hafði óskað eftir fundi í nefndinni en nefndin telur mikilvægt að fara yfir málið.
„Það er mikilvægt að flýta eins og nokkur kostur er gerð jarðgangna á milli Fljóta og Siglufjarðar, sem leysir þessa hættulegu leið af hólmi,“ sagði Bjarni að lokum.
- - - - - -
Á myndinni að ofan má sjá að gangaskálinn vestanvert í Strákagönum er nánast í lausu lofti. Á stóru myndinni hér að neðan má sjá nýrri og gamla veginn um Almenninga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.