Bjarki stoltur af strákunum þrátt fyrir skell í Hafnarfirði
Síðari leikirnir í undanúrslitum 4. deildar fóru fram í gær og þar voru Húnvetningar með lið í eldlínunni. Kormákur/Hvöt sótti lið ÍH heim í Skessuna í Hafnarfirði. Eftir 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna á Blönduósi um liðna helgi þurftu bæði lið að sækja til sigurs og tryggja þannig sæti í 3. deild að ári. Því miður voru Hafnfirðingarnir í banastuði og gerðu nánast út um leikinn á fyrstu tíu mínútunum. Lokatölur voru 7-1 og okkar menn því áfram í 4. deild.
Ingvar Ásbjörn og Andri Þór gerðu fyrstu mörkin fyrir ÍH á 9. og 11. mínútu og Andri bætti við þriðja marki ÍH á 35. mínútu. Staðan 3-0 í hálfleik. Pétur Hrafn gerði tvö mörk snemma í síðari hálfleik og draumurinn um fótbolta í 3. deild næsta sumar úr sögunni hjá Húnvetningum. Hilmar Kára klóraði þó í bakkann með marki á 70. mínútu en á 80. mínútu kom Bergþór Snær inn á hjá ÍH og hann var búinn að skora mínútu síðar og bætti við öðru marki sínu og sjöunda marki ÍH á 87. mínútu.
Það er því ljóst að ÍH hefur tryggt sér sæti í 3. deild og úrslitaleik um sigur í 4. deild gegn liði KFS sem bar sigurorð af liði Hamars á Hásteinsvelli í Eyjum í gær en KFS vann báða leikina 1-0.
Það er að sjálfsögðu súrt fyrir lið Kormáks/Hvatar að falla aftur úr leik í undanúrslitum úrslitakeppninnar en í fyrra þá hafði Ægri Þorlákshöfn betur gegn Húnvetningunum. Feykir hafði samband við Bjarka Má Árnason, þjálfara Kormáks/Hvatar, nú í morgun og spurði: Hvað klikkaði? „Ég vil nú byrja á því að segja að við erum búnir að eiga frábært tímabil þar sem mikið hefur verið um gleðistundir og liðið spila afbragðs vel. Í gær átti liðið einfaldlega mjög slakan dag, við vörðumst ekki nógu vel sem lið og einnig nýttum við ekki færin okkar, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þegar við mætum þetta góðum andstæðingi þá verðum við að vera tilbúnir og við vorum það ekki. Annars er ég afskaplega stoltur af liðinu og leikmönnunum og þetta fer í reynslubankan hjá okkur öllum.
Hvað gera bændur nú? „Það næsta er leikur um 3.sæti á laugardaginn kemur í Reykjavík. Hvað framhaldið varðar þá er lítið búið að ræða það því það og það kemur í ljós með tímanum.“
Ertu æstur í að halda áfram í boltanum – innan sem utan vallar? „Ég veit ég mun halda áfram í boltanum,alveg klárlega utan vallar en innan vallar mun bara skýrast. Ég er allavega ekki hættur í hausnum akkúrat núna. Kroppurinn er í fínu lagi og ég geri nú ekki ráð fyrir öðru en að ég verði í góðu formi eins og alltaf – þannig að við sjáum til,“ segir Bjarki sem er árgerð 1978 en enn með sportrendurnar glansandi þrátt fyrir að hafa fengið nokkrar dældir í gegnum árin.
Áætlað er að leikurinn um þriðja sætið verði spilaður á laugardag kl. 14 en ekki er ljóst hvar hann verður spilaður. Þar mætir Kormákur/Hvöt liði Hamars úr Hveragerði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.