Birgitta og Elísa Bríet í U17 hópnum

Snillingarnir okkar, Elísa Bríet Björnsdóttir og Birgitta Rún Finnbogadóttir frá Skagaströnd, hafa verið valdar í 20 leikmanna hóp U17 kvenna fyrir undankeppni EM 2025. Þetta er um margt afar merkilegt því þessir kornungu leikmenn meistaraflokks Tindastóls eru einu stúlkurnar af Norðurlandi sem eru í hópnum. 

Það verður varla annað sagt en að þær eigi þetta skilið, hafa báðar byrjað alla leiki Tindastóls í Bestu deildinni sem þær hafa átt kost á að spila. Og staðið sig frábærlega.

Það er Þórður Þórðarson landsliðsþjálfari U17 kvenna sem valdi hópinn fyrir fyrstu umferð undankeppni EM 2025 en Ísland er þar í riðli með Norður Írlandi, Póllandi og Skotlandi. Leikið verður í Skotlandi dagana 1.-7. október.

„Ísland er í A deild undankeppninnar, en liðið sem endar í neðsta sæti riðilsins fellur í B deild fyrir aðra umferð undankeppninnar í vor. Þau sjö lið sem vinna svo riðlana sína í A deild í seinni umferð undankeppninnar fara áfram í lokakeppnina sem verður haldin í Færeyjum 4.-17. maí 2025,“ segir á vef KSÍ.

Hversu geggjað er þetta ævintýri vinkvennanna frá Skagaströnd eiginlega? Svo má auðvitað geta þess í framhjáhlaupi að fyrirliði íslenska landsliðsins og Bayer Munchen er líka ættuð frá Skagaströnd, Glódís Perla Viggósdóttir, sem var á dögunum valin í hóp þeirra 30 leikmanna sem hafa þótt skara framúr í kvennaboltanum.

Sjá má U17 hópinn sem valinn var hér >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir