Birgir í ársleyfi meðan hann stýrir Fangelsismálastofnun

Birgir Jónasson lögreglustjóri á Norðurlandi vestra. MYND AF MBL.IS
Birgir Jónasson lögreglustjóri á Norðurlandi vestra. MYND AF MBL.IS

Lögreglustjórinn á Norðurland vestra, Birgir Jónasson, mun taka við sem forstöðumaður Fangelsismálastofnunar í byrjun næsta mánaðar í fjarveru Páls E. Winkel fangelsismálastjóra. Samkvæmt upplýsingum Feykis fer Birgir í leyfi frá störfum í tólf mánuði, líkt og Páll, en Sigurður Hólmar Kristjánsson mun gegna stöðu lögreglustjóra á Norðurlandi vestra meðan á þessum hrókeringum stendur.

Birgir, sem hefur sett mark sitt á embætti lögreglustjóra LNV meðal annars með breyttum áherslum í afbrotavörnum og þjónustu við borgarana, segir í frétt í Morgunblaðinu það verða sín fyrstu verk á nýjum vinnustað að kynnast því ágæta fólki sem hann mun starfa með og kynna sér starfsemina.

Hann segir talsverðan mun vera á því að stjórna stofnun þar sem 25 manns starfa yfir í vinnustað þar sem vinna á annað hundrað manns. „Það er mik­ill stærðarmun­ur á þess­um stofn­un­um og þetta er ákveðið tæki­færi fyr­ir mig og ég er ánægður með að mér skuli vera sýnt þetta traust,“ seg­ir Birg­ir.

Birgir lauk meistaraprófi í lögfræði árið 2010 og MBA gráðu árið 2017. Þá lauk hann prófi frá Lögregluskóla ríkisins árið 2000 og hefur auk þess sótt sér ýmiss konar viðbótarmenntun. Hann var skipaður lögreglustjóri á Norðurlandi vestra sumarið 2021.

Sigurður Hólmar Kristjánsson, sem leysir Birgi af, er aðstoðarsaksóknari LNV og staðgengill lögreglustjóra, ættaður frá Breiðabólstað og búsettur á Hofsósi. Hann hefur starfað hjá embættinu sem aðstoðarsaksoknari fra árinu 2015 en hann lauk meistaraprófi í lögfræði frá HA 2014.

Nánar má lesa um þetta á mbl.is >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir