Billie Eilish heillar mest þessa dagana / HALLDÓR GUNNAR
Nú er það Fjallabróðirinn Halldór Gunnar Pálsson sem tjáir sig um Tón-lyst sína á síðum Feykis. Hann fæddist á Flateyri við Önundarfjörð árið 1981 og ólst þar upp, sonur Páls Önundarsonar og Magneu Guðmundsdóttur. „Móðir mín, Magnea, hefur búið á Varmalæk í Skagafirði í átján ár og er gift eðal drengnum Birni Sveinssuni,“ segir Halldór.
Gítar er aðalhljóðfæri kappans en hann leikur á nokkur til viðbótar en flestir ættu að kannast við Halldór sem stjórnanda Fjallabræðra og sem gítarleikara einnar alvinsælustu hljómsveitar landsins síðustu ár, Albatross. Aðspurður um helstu tónlistarafrek segir hann: „Finnst frekar skrýtið að tala um afrek þar sem erfitt er að keppa í tónlist. Ég er hins vegar mjög stoltur af þeim afrekum sem Fjallabræður hafa unnið og ber þar til dæmis að nefna heimboð sem við fengum frá Karlakórnum Heimi um að syngja með þeim í Miðgarði. Sú stund markar líka upphaf samstarfs míns við vin minn og Skagfirðing, Sverri Bergmann.“
Hvaða lag varstu að hlusta á? -Ég var að hlusta á nýtt lag sem Fjallabræður eru að vinna.
Uppáhalds tónlistartímabil? -Það er erfitt að segja til um það þar sem ég hef alla tíð verið duglegur að hlusta á tónlist. En sú tónlist sem var í gangi á árunum 1960-1980 er sú tónlist sem ég hef hvað mest hlustað á myndi ég segja. Til að byrja með hlustið ég eiginlega bara á Led Zeppelin og fátt annað komast að hjá mér.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? -Það er mjög margt. Ég reyni að vera ekki of mikið í bergmálshellinum og gef öllu séns. Það sem hafa heillað mig mest þessa stundina er tónlistarkonan Billie Eilish.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? -Það var náttúrlega bara klassísk íslensk dægutónlist en Bítlarnir og Abba ómuðu oft í græjunum.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? -Mig minnir að fyrsta Kassettan hafi verið Welcome to the Jungle með Guns n´ Roses, fyrsta Vinyl platan var Paranoid með Black Sabbath og fyrsti geisladiskurinn hafi verið Nevermind með Nirvana. Það gæti hinsvegar verið að Bob Dylan hafi laumað sér þarna einhversstaðar inn á milli.
Hvaða græjur varstu þá með? -Það voru sennilega bara einhverjar Pioneer fermingargræjur.
Hvað var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? -I Just Called to say I Love You men Stevie Wonder… svo Stairway to Heaven með Led Zeppelin.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? -Það fer nú fátt þannig í taugarnar á mér… það væri þá helst eitthvað sem ég hef gert sjálfur og á erfitt með að hlusta.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -Creedence Clearwater Revival, það klikkar ekki.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? -Þá finnst mér gott að hlusta á kassagítarmúsik. Eitthvað svona Singer/songwriter dót. Dylan td.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Ætli ég tæki ekki bara alla fjölskylduna með mér á Rolling Stones tónleika. Þetta er samt mjög erfið spurning og mikið af listamönnum sem ég væri til í að sjá með mínu fólki.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? -Nirvana, Led Zeppelin, Bob Dylan, Bob Marley, Pearl Jam, Trúbrot, Black Sabbath, Red Hot Chili Peppers ofl.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? -Mig hefur nú aðalega dreymt um að vera besta útgáfan af sjálfum mér sem tónlistarmaður en margir haft mikil áhríf og er ég búinn að telja nokkra upp hér að ofan. Af íslenskum tónlistarmönnum myndi ég segja að Magnús Þór Sigmundsson sé búinn að hafa mjög mikil áhrif á mig.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? -Svarið sem ég gef í dag er ekki sama svarið og ég gef á morgun. Það eru til svo margar frábærar plötur. Ég nefni tvær í dag.. Grace með Jeff Buckley og OK Computer með Radiohead.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? -Spotify listinn minn er mjög skrýtinn þar sem ég á 5 ára dóttur og ég nota Spotify mikið þegar ég þarf að læra ný lög fyrir hin og þessi verkefni og gefur þar af leiðandi ekki alveg skýra mynd á hvað ég hlusta á :) En hann er einhvernveginn svona...
Stórir Hringir - Írafár
Haukur Morthens -Stína ó Stína
Pollapönka - 113 Vælubílinn.
Mötley Crüe - Kickstart My Heart
Skoppa og Skrítla - Hér koma Skoppa og Skrítla
María Björk Sverrisdóttir - Allur matur
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.