Ben Stiller hreifst af Grettissögu í Drangeyjarferð
Leikarinn góðkunni og Íslandsvinurinn Ben Stiller var staddur á landinu á dögunum. Á meðan á dvöl hans stóð fór hann í siglingu með Drangeyjarferðum, eða Drangey Tours, út í Drangey í Skagafirði síðastliðinn laugardag. „Hann fékk alveg frábært veður, útsýni yfir allan fjörðinn og sá nóg af lunda - þetta var mjög skemmtileg ferð,“ sagði Helgi Rafn Viggósson hjá Drangeyjarferðum í samtali við Feyki.
Stórleikarinn var ásamt vinafólki í skipulagðri ferð sem hafði verið bókuð nokkrum dögum áður. „Það er ekki á hverjum degi sem maður fær svona höfðingja í heimsókn þannig að það var gaman að taka á móti honum. Við vorum ekkert að kippa okkur rosalega upp við þetta þó við höfum fengið þarna eina mynd með honum,“ sagði Helgi Rafn en myndin af honum ásamt Ben Stiller var birt á Facebook-síðu Drangey Tours í fyrradag í tilefni af 33 ára afmæli Helga.
Þegar Helgi Rafn er spurður hvort Ben hefði ekki verið lofthræddur svarar hann því neitandi. „Hann reif sig upp í Drangey eins og ekkert væri ásamt vinum sínum. Við tókum á móti honum eins og hverjum öðrum ferðamanni, labbaði með honum um eyjuna og sagði honum Grettissöguna og hann hlustaði og fannst þetta skemmtileg saga. Það er spurning hvort hann gerir bíómynd um þetta,“ sagði Helgi og hló.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.