Baráttan við Álftanes leggst vel í Ingva Rafn
Síðasta umferðin í 4. deild karla fór fram um síðustu helgi og þá varð ljóst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni sem hefst nú á föstudaginn. Lið Kormáks/Hvatar hafði þegar tryggt sæti sitt í úrslitakeppninni fyrir lokaumferðina og hefur spilað vel í sumar. Lið Húnvetninga fær hins vegar verðugt verkefni í átta liða úrslitum en þá etja þeir kappi við lið Álftaness og fer fyrri leikur liðanna fram á Blönduósi á morgun, 27. ágúst, og hefst kl. 18:00. „Ég held að það megi búast við skemmtilegri viðureign tveggja góðra liða þar sem allt getur gerst. Ef við mætum klárir þá hef ég ekki miklar áhyggjur,“ segir Ingvi Rafn Ingvarsson, spilandi þjálfari Kormáks/Hvatar, í spjalli við Feyki.
„Álftanes er vel spilandi lið, bæði með unga leikmenn í bland við nokkra reynslumeiri. Hins vegar höfum við fulla trú á okkur sjálfum og erum ekki að pæla alltof mikið í liðunum sem við fáum,“ bætir Ingvi við.
Hvað er það sem hefur helst glatt þjálfara Kormáks/Hvatar í sumar? „Fyrst og fremst hef ég verið virkilega sáttur við stigasöfnun liðsins. Við náðum fyrsta markmiði okkar, sem var að tryggja sæti í úrslitakeppninni, og erum við ánægðir með það. Spilamennska liðsins hefur verið nokkuð góð í flestum leikjum. Varnarleikurinn hefur verið sterkur í bland við fínasta sóknarleik oft á tíðum. Þrátt fyrir það erum við alltaf að reyna að verða betri sem lið og hef ég fulla trú á að við eigum eftir að gera enn betur í úrslitakeppninni. Þá hef ég verið þakklátur fyrir stuðninginn úr stúkunni í sumar og vona ég að stuðningurinn haldi áfram út úrslitakeppnina.“
Það virðast ansi mörg lið í úrslitakeppninni hafa á að skipa sterkum hópi. Fer góðum liðum í 4. deild fjölgandi? „Ég myndi segja það já. Á hverju tímabili eru að bætast við lið sem eru tilbúin að skrúfa upp metnaðinn til að komast upp um deild þó leiðin sé erfið. 4. deildin er því alltaf að verða sterkari, sem er fagnaðarefni, en þá eru sterkustu liðin að fá enn fleiri alvöru leiki. Þá tel ég að það sé mikið af öflugum leikmönnum í deildinni sem gætu auðveldlega verið að spila í efri deildum.“
Getumunur á sterkari og veikari liðum 4. deildar er mikill. Er kominn tími á að fjölga liðum í 3. deild og skipta henni í tvennt eða ertu sáttur við skipulagið á mótshaldinu eins og það er í dag? „Auðvitað er alltaf mikil skemmtun í úrslitakeppninni sem 4. deildin hefur upp á að bjóða. Hins vegar er leiðin upp í 3. deild oft erfið þar sem liðin þurfa að vera stöðug í gegnum deildina til að tryggja sér sæti í úrslitakepninni. Þegar þangað er komið byrjar í raun n‡ keppni þar sem liðin mega ekki mísstíga sig til að koma sér upp um deild.
Ég er ekkert endilega á því að það þurfi að fjölga í 3. deild en mín pæling er hvort væri ekki hægt að fjölga deildum á Íslandi. Þá væri hægt að mynda 4. deild með sterkustu liðunum úr henni, sem myndi þá fjölga fleiri alvörum leikjum fyrir liðin. Leiðin upp í 3. deild yrði þá auðveldari en þá myndu efstu tvö liðin úr deildinni komast beint upp. Þá myndu veikari liðin sem eru í 4. deild núna mynda þar með 5. deild.“
Eru allir leikmenn heilir fyrir átökin í úrslitakeppninni? „Það eru engin alvarleg meiðsli í hópnum. Einungis einhver smávægileg meiðsl en eins og alltaf verða menn fljótir að gleyma því þegar þeir stíga inn á völlinn í eins stórum leikjum og eru framundan fyrir okkur. Það eru því allir klárir,“ segir Ingvi Rafn að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.