Bætum skólakerfið
Á Íslandi hafa menn lengi státað sig af góðu menntakerfi og að allir hafi jafnan rétt til náms. Þegar litið er hins vegar yfir menntakerfið sést að brottfall úr framhaldsskólum er umtalsvert eða rúmlega fjórðungur þeirra sem innrita sig. Brottfall á háskólastigi er einnig mikið eða um 15% samkvæmt Hagstofu Íslands. Samkvæmt þessu eru því um 40% nemenda sem heltast úr námi á meðan á skólagöngunni stendur og því er greinilegt að endurskoða þarf núverandi menntakerfi.
Leita þarf leiða við að gera námið áhugavert og aðstoða þarf nemendur við að finna þá leið sem hentar þeim í námi. Sú hugmyndafræði að sama kennsluaðferð nýtist öllum er orðin úrelt og við þurfum að horfast í augu við að einstaklingar eru mismunandi og mæta þarf þörfum hvers og eins. Nýja námskráin er góð byrjun en standa þarf betur á bak við kennara sem vilja leita nýrra leiða við kennslu og breyta þarf skólakerfinu svo það hvetji til náms frekar en letji.
Námsformið og brottfallið er hins vegar ekki það eina sem veldur vandræðum hjá námsfúsu ungu fólki en fjármögnun námsins getur komið í veg fyrir að námsmenn, þá sérstaklega á landsbyggðinni, hafi kost á að sækja skóla. Nú hefur verið hægt að sækja um svokallaðan dreifbýlisstyrk fyrir þá nemendur sem vilja stunda framhaldsskóla utan sinnar heimabyggðar en hann dugir skammt með hækkandi leigu- og matarverði. Þar að auki eru námslán á háskólastigi frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) ekki til þess fallin að hægt sé að lifa af þeim enda grunnframfærslan langt undir viðmiðunarmörkum Velferðarráðuneytisins.
Þessi uppsetning hlýtur að stangast á við hugmyndina um jafnan rétt til náms þegar einstaklingar utan þéttbýliskjarna landsins hafa ekki kost á að sækja skóla sökum kostnaðar. Hér er því um hreina og klára mismunun eftir byggðarlagi að ræða og landsbyggðin er að hluta til útilokuð frá námi ef fjölskyldan getur ekki staðið á bak við námsmanninn. Þetta ástand er ekki viðunandi og því þarf að endurskoða lánasjóðskerfið í heild og ekki einvörðungu hvað háskólann varðar heldur einnig framhaldsskólann.
Grunnframfærsluna þarf að hækka enda stangast upphæðin, 140.600, á við öll viðmiðunarmörk fyrir grunnframfærslu. Fella þarf niður tekjuskerðingu svo námsmaðurinn geti unnið á sumrin og meðfram skólanum eins og hann hefur getu og löngun til, enda eru lánin háð námsárangri. Greiða þarf lánið fyrirfram en ekki eftir á með tilheyrandi kostnaði við yfirdrátt, enda á LÍN ekki að stuðla að uppbyggingu bankakerfisins. Styrkja skal þá nemendur sem sækja skólann af kappi, óháð því hvort þeir taka námslán eða ekki, og klára á tilsettum tíma enda hljóta skólarnir sjálfir greiðslu við útskrift nemenda sem ættu að hluta að ganga til nemendanna sjálfra. Rannsaka þarf hvernig hægt er að koma til móts við nemendur í framhaldsskóla sem þurfa á fjárhagsstuðningi að halda.
Gæta þarf við þessar breytingar að engum sé mismunað á grundvelli búsetu, aldurs eða annarra forsenda. Við búum í Norrænu velferðarsamfélagi þar sem jafn réttur til náms er lykilatriði við uppbyggingu nýs og betra þjóðfélags. Píratar gefa engan afslátt á grundvallarréttindum fólks og munum við því beita okkur af krafti fyrir að eyða út allri mismunun í skólakerfinu.
Hildur Sif Thorarensen
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.