Axel tekur sér frí frá körfuboltanum

Axel Kára og Kristófer Acox einbeittir í úrslitakeppninni í vor. MYND: HJALTI ÁRNA
Axel Kára og Kristófer Acox einbeittir í úrslitakeppninni í vor. MYND: HJALTI ÁRNA

Það voru einhverjir sem spáðu því eftir að Körfu-Stólarnir versluðu nokkra lipra leikmenn í vor að það væri næsta víst að nú færi Íslandsmeistaratitillinn norður á Krók að ári. Eitthvað sló á bjartsýnina þegar Sigtryggur Arnar gekk úr skaftinu og í lið Grindavíkur en Stólarnir nældu í staðinn í Dino Butorac. Sá orðrómur að Axel Kára hyggðist taka sér pásu frá körfuboltanum hefur hins vegar valdið mörgum stuðningsmanni Stóla áhyggjum og nú í vikunni staðfesti Axel, í viðtali við Vísi.is, að hann yrði ekki með Stólunum í vetur.

„Ég er ekki hættur. Þetta er bara smá pása hjá mér,“ segir Axel í Vísi og gerir ekki ráð fyrir því að snúa aftur eftir jól og klára tímabilið.„Ég hef sagt forráðamönnum Tindastóls að gera ekki ráð fyrir mér í vetur. Ég vil ekki vera að gera þetta í einhverju hálfkáki. Ég vil ekki lofa því að koma aftur eftir áramót því það er ekkert víst að löngunin verði þá til staðar. Maður veit samt aldrei hvort andinn komi yfir mann. Það verður bara að koma í ljós.“

Þetta er að sjálfsögðu skellur fyrir lið Tindastóls, enda Axel þaulreyndur í bransanum og landsliðsmaður til margra ára. Ekki er á honum að heyra að hann hyggist leggja skóna á hilluna því hann segist ætla að vinna í veikleikum sínum í vetur, þjálfa sig í að drippla með vinstri og vinna í sprengikraftinum. „Ég ætla ekki að koma til baka lélegri en ég var. Ég mun fara á frjálsíþróttaæfingar og fæ svo pabba gamla í að skóla mig eitthvað til,“ segir Axel.

Sá ágæti körfuboltavefur Karfan.is birtir í dag það sem þeir kalla ótímabæra kraftröðun Dominos deildar karla #2. Í þeirri fyrri spáðu þeir Tindastóls-liðinu titlinum en nú í kjölfar frétta af frímennsku Axels þá gjaldfella þeir Stólana niður um eitt sæti og setja Stjörnuna á toppinn. Miklar sviptingar hafa verið á leikmannamarkaðnum í sumar og verður spennandi að fygljast með Dominos-deildinni í vetur og hvernig liðin koma stemmd inn í mótið.

Hægt er að hlýða á þessar pæliingar þeirra Körfu-manna hér >

Spilað á Hvammstanga í kvöld

Stuðningsmenn Tindastóls geta farið að láta sig hlakka til vertíðarinnar því fyrsti æfiingaleikur liðsins er einmitt í kvöld á Hvammstanga en þar mæta Stólarnir liði Skallagríms. Með Sköllunum leikur Björgvin Hafþór sem skipti úr Stólunum í sumar en auk hans hafa Chris Caird, Sigtryggur Arnar og Hester yfirgefið Stólana. Í þeirra stað eru komnir fjórir leikmenn; Urald King, Denero Axel Thomas, Dino Butorac og Brynjar Þór.

Danero og Pétur Birgis voru í landsliðsverkefnum með Íslandi á dögunum. Danero spilaði talsvert með liðinu og gerði átta stig í fyrri leiknum en tvö í þeim síðari. Pétur meiddist í fyrsta leikhluta í fyrsta leiknum, fékk högg á nefið og kom ekki meira við sögu í leikjunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir