Auður Herdís tekur við rekstri Héðinsminnis

Auður Herdís Sigurðardóttir, oft kennd við Stóru-Akra í Blönduhlíð, hefur tekið við rekstri félagsheimilisins Héðinsminni en samningur þess efnis var undirritaður við Skagafjörð til næstu fimm ára. Héðinsminni verður kynntur sem nýr áfangastaður í Skagafirði fyrir hópa í mat og drykk undir merkjum Áskaffis.

Héðinsminni er við þjóðveg 1 í Blönduhlíðinni, um tíu mínútna akstur frá Varmahlíð þegar ekið er austur um til Akureyrar. Herdís segir að fyrst um sinn verði aðeins opið fyrir hópa í mat og drykk sem panta fyrirfram. En þegar líður að sumri ætlar hún að opna meira fyrir gesti og mun auglýsa það t.d. á Facebooksíðu Héðinsminnis

„Verið velkomin í Héðinsminni í Skagafirði þar sem Áskaffi góðgæti býður matseðil fyrir hópa,“ segir í kynningu en um tveggja áratuga skeið rak Herdís kaffistofuna Áskaffi í einu húsa Byggðasafns Skagfirðinga í Glaumbæ, á sama stað og safnið rekur sína eigin kaffistofu undir öðru nafni.

„Í dag er Áskaffi góðgæti í Héðinsminni,“ segir Herdís sem hlakkar til að taka á móti gestum á nýjum áfangastað þar sem hún mun áfram leggja áherslu á að bjóða góðgæti eins og í Áskaffi forðum, sem margir þekkja. „Ýmsar nýjungar verða á boðstólum og um að gera að heyra í mér ef þið hafið áhuga að koma með hópinn ykkar í hádegismat, miðdagskaffi eða kvöldmat. Verið hjartanlega velkomin í sveitina,“ segir hún en nánari upplýsingar gefur Herdís í síma 6996102 eða á kompan@simnet.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir