Atvinnuskapandi rekstur minni fyrirtækja

Það er eftirtektarvert að smáfyrirtæki, svonefnd örfyrirtæki og lítil fyrirtæki, eru stærsti atvinnuveitandi á Íslandi og gegna lykilhlutverki í atvinnulífinu. Þannig eru smáfyrirtæki, fyrirtæki með færri en 250 starfsmenn, um 99% fyrirtækja í landinu. Um 27 þúsund smáfyrirtæki eru í landinu með um 90 þúsund starfsmenn og smáfyrirtæki með undir 10 starfsmönnum eru rúmlega 90% allra fyrirtækja. Þetta eru athyglisverðar tölur, sem vert er að hafa í huga.

 

Lítill opinber stuðningur

Íslendingar eru gjarnan hugmyndaríkir og viljugir til þess að taka áhættu á því að fara út í sjálfstæðan atvinnurekstur. Sem betur fer er tiltölulega auðvelt að stofna nýtt fyrirtæki hér á landi. Hins vegar skortir stundum skilning hjá hinu opinbera hve mikilvægt það er að hlúa að þessu og gera fólki auðveldara með að bjarga sér. Flækjustig getur verið talsvert við að fá ýmis rekstrarleyfi vegna þungs skrifræðis og fjölda eftirlitsaðila. Ólíkt því, sem þekkist víða annars staðar, eru ekki veittir hvatar í gegn um skattakerfið til þess að koma þessum fyrirtækjum á koppinn og styðja þau þannig á meðan þau eru að slíta barnaskónum. Ennfremur getur reynst afar erfitt að fjármagna slík fyrirtæki þrátt fyrir persónulegar ábyrgðir stofnenda. Það má muna það að eitt sinn voru öll fyrirtæki smáfyrirtæki sbr. t.d. Marel.

Fjölgun atvinnutækifæra

Samkvæmt upplýsingum frá Viðskiptaráði Íslands þá eru um 23.900 smáfyrirtæki með undir 10 manns í vinnu í landinu. Því má segja að það þurfi aðeins að skapast eitt nýtt starf hjá fjórða hverju smáfyrirtæki til að skapa rúmlega 6.000 fjölbreytt störf. Það væri þannig hægt að minnka atvinnuleysi verulega ef að þessi smáfyrirtæki myndu vaxa sem nemur aðeins einum starfsmanni. Opinber stuðningur við þessi fyrirtæki með einföldun regluverks og skattaívilnunum væri þannig fljótur að borga sig í gegn um minni atvinnuleysisbætur og þess háttar stuðningsaðgerðir. Einnig þyrfti að efla sjóði, sem taka þátt í fjármögnun nýrra fyrirtækja. Skynsamlegt væri að fara sömu leið og Bandaríkjamenn eða eins og SBA (Small Business Administration) starfar þar. Í meginatriðum leyfir þessi leið fyrirtækjum og athafnamönnum að setja upp 10% stofnfé, SBA sjóðurinn 40% og bankinn 50%. Í Bandaríkjunum er sjóðnum, sem er sjálfseignarstofnun, heimilt að lána allt að því sem samsvarar um kr. 600 milljónum. Lesa má um þetta t.d. á wikipedia.org. Þetta hefur gefist vel þar ytra og þá hvers vegna ætti það sama ekki að gilda hér?

Stjórnmálin

Ég geri ráð fyrir því að flestallir stjórnmálmenn séu þessu sammála, a.m.k. í orði kveðnu. Samt er margt ógert í þessum efnum. Hægri grænir, flokkur fólksins, er undantekning, en hann hefur lýst því yfir m.a. á xg.is að hann vilji taka þessi mál föstum tökum komist hann til nægilegra áhrifa.

Kjartan Örn Kjartansson

Höfundur er fyrrv. forstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir