Áskell Heiðar heim að Hólum en messar áfram í Gránu
Á heimsíðu Háskólans á Hólum segir að ferðamáladeild hefur ráðið Áskel Heiðar Ásgeirsson í fullt starf við deildina. Fram kemur að Áskell Heiðar, sem á ættir að rekja í Borgarfjörð eystra en búið á Sauðárkróki síðan á síðustu öld, hefur fjölþættan bakgrunn sem mun nýtast vel við verkefni á sviði kennslu, rannsókna og stjórnunar í viðburðastjórnun og ferðamálafræði.
„Áskell Heiðar hefur víðtæka reynslu af skipulagningu og stjórnun viðburða. Má þar nefna að hann var meðal stofenda tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar á Borgarfirði eystri og hefur stýrt hátíðinni allar götur síðan. Hann var framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna bæði á Hólum 2016 og í Reykjavík 2018. Hann starfaði síðast sem framkvæmdastjóri Sýndarveruleika ehf og sýningarinnar 1238 - Baráttan um Ísland. Hann var um langt skeið sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar og hefur m.a. starfað hjá þróunarsviði Byggðastofnunar og sem verkefnastjóri hjá Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi.Áskell Heiðar hefur um árabil verið stundakennari bæði við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands. Hann er með meistaragráðu í ferðamálafræði með áherslu á viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum í samstarfi við Leeds Metropolitan University í Bretlandi og Diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands,“ segir í fréttinni og klikkt út með því að bjóða kappann velkominn til starfa og fagnar þessum nýfengna liðsauka í starfsmannahóp skólans.
Með marga bolta á lofti
Feykir spurði Áskel Heiðar hvort nýr starfsvettvangur þýddi að reikna mætti með messufalli viðburða á vegum Menningarfélagsins Gránu sem staðið hefur fyrir fjölbreyttri dagskrá í Gránu á Sauðárkróki síðustu misserin. „Nei, hér verður messað áfram, við erum nokkur sem stöndum á bak við Menningarfélagið og hér verður áfram spennandi dagskrá. Við vorum t.d. að bóka Geirmund í mars, vonandi kemur Gísli Einars fyrir vorið og svo eru mjög spennandi tónleikapælingar í gangi sem við kynnum síðar.“
Eins og oftast er Heiðar með marga bolta á lofti. „Ég er að klára ákveðin verkefni hér sambandi við útrásarpælingar og samstarf Sýndarveruleikans við önnur söfn og setur, svo er Bræðslan auðvitað á dagskrá í sumar. Svo fylgja alls konar spennandi pælingar með nýja starfinu auk kennslunnar, t.d. ýmis konar hugmyndir um rannsóknir á viðburðum og bæjarhátíðum og podcastþættir um sögu útihátíða sem ég hef verið að undirbúa í nokkra mánuði“ segir hann að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.