Arnar Freyr Íslandsmeistari í múraraiðn
Á Íslandsmóti iðn- og verkgreina, sem fram fór um liðna helgi, hampaði Arnar Freyr Guðmundsson á Sauðárkróki Íslandsmeistaratitli í múraraiðn. Alls var keppt í 21 faggrein þar sem keppendur tókust á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reyndi á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku, eins og segir á namogstorf.is.
„Þetta var ofboðslega skemmtileg og mjög spennandi keppni allan tímann,“ sagði Arnar Freyr í samtali við Feyki en hann var einn þriggja úr Tækniskólanum sem tók þátt í keppninni. „Við fengum ekki stærri bás en það. En við vorum látin hlaða vinkil með vikurstein og annan minni á honum innanverðum svo áttum við að múra og rétta og bera flot á,“ útskýrir Arnar sem er á sinni þriðju önn. Hann er útskrifaður trésmiður frá FNV og segir að þar með taki múraranámið ekki lengri tíma og klárar í vor en hann er á samningi hjá Baldri Haraldssyni, múrara.
En af hverju smíðar og múrverk?
„Ætli ég hafi ekki farið í smíðarnar út af pabba og afa, maður er búinn að brasa með þeim síðan ég var lítill. Svo fór ég í múrverkið þar sem ég sá að það stóð alltaf svo mikið til þegar múrarinn mætti á svæðið. Þá var grillað og agalegt fjör sko,“ segir Arnar glaðhlakkalega. Arnar segir nóg að gera í múrverkinu og hvetur hann alla til að skoða það að fara í iðnám. „Það er alltaf gott að geta reddað sér sjálfur í þessum hlutum!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.