Árið 2021: Lífið á Smáragrundinni spennusögu líkast

Álfhildur Leifs. AÐSEND MYND
Álfhildur Leifs. AÐSEND MYND

Það er komið að Álfhildi Leifsdóttur að gera upp árið á netsíðu Feykis. Hún býr á Smáragrundinni á Króknum, í hjarta bæjarins, en er að sjálfsögðu uppalin í Keldudal í Hegranesi. Álfhildur er kennari og sveitarstjórnarfulltrúi og auk þess fiskur. Til að lýsa árinu notar hún þrjú orð sem öll byrja á eff; Fjölskyldusamvera, fjarfundir, fordæmalaust!

Hver er maður ársins? Í mínum huga ættu tveir þann titil sem ég get ekki gert upp á milli. Annars vegar er það hann Árni á Hard Wok sem gefur endalaust til samfélagsins með sínu einstaka hjartalagi. Hins vegar er það hann Sigurjón frá Garði sem tæklar erfitt verkefni af einurð með sitt ótrúlega góða lundarfar og festu að vopni.

Hver var uppgötvun ársins? Ostur og svartur lakkrís saman, geggjað kombó.

Hvað var lag ársins? Ég hlusta mikið á Jónas Sig - ætli lögin Höldum áfram og Hleypið mér úr þessu partýi geri árið ekki ágætlega upp.

Hvað var broslegast á árinu? Að fara með börnin mín þrjú í óvissuferð um miðjan júní og vakna í tjaldi við alhvíta jörð og snjókomu. Krökkunum fannst ég ganga heldur langt í óvissunni en ferðin er sannarlega eftirminnileg fyrir vikið.

Hvers heldurðu að þú eigir eftir að sakna frá árinu 2021 – eða ekki? Sumarblíðunnar á Norðurlandi, vonandi á hún afturkvæmt.

Varp ársins? Dagur í lífi á RÚV. Þættir sem fá mann til að endurskoða eigin þankagang.

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Covid að sjálfsögðu og grímuskyldunni með.

Hver var helsta lexía ársins?
Að fara ekki í framkvæmdir stuttu fyrir jól. Lífið á Smáragrundinni er búið að vera eins og spennusaga undanfarnar vikur: verður nýtt eldhús starfhæft fyrir jól?! Verður komið heitt vatn og kemst fjölskyldan í sturtu á aðfangadag?! En allt endaði þetta vel að lokum, svona rétt korter í jól.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir