Árið 2021: It ain‘t over till it‘s over
Þá er enn eitt árið senn liðið og því um að gera að fá nokkra spræka gesti til að gera árið upp. Svarendum verður stráð með nokkuð jöfn millibili yfir jól og áramót og fyrst drögum við upp úr hattinum Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur. Þegar hún er beðin að lýsa árinu í þremur orðum segir hún: „Eldgos, bóluefni og alþingiskosningar.“
Heiðdís er Króksari en býr nú í Garðabæ, starfaði lengi við fjölmiðla en starfar nú sem yfirlögfræðingur hjá Fjölmiðlanefnd. Hún er sporðdreki og notar skónúmer 40.
Hver er maður ársins? Hér koma margir til greina. Björgunarsveitirnar sem stóðu vaktina við eldgosið á Reykjanesi og Öfgar, baráttuhópur gegn nauðgunarmenningu. Már Gunnarsson sund- og tónlistarmaður ætti titilinn líka fyllilega skilið fyrir framgöngu sína á Ólympíuleikum fatlaðra og fyrir að vera almennt til fyrirmyndar.
Hver var uppgötvun ársins? Laufey Lín Jónsdóttir djasstónlistarkona. Dásamleg söngkona sem spilar á selló, gítar og píanó. Söngur hennar kallar fram álíka hughrif og söngur Ellu Fitzgerald og Nat King Cole á sínum tíma og það er ekki leiðum að líkjast. Laufey verður stórstjarna á heimsmælikvarða ef hún heldur áfram á sömu braut.
Hvað var lag ársins? Ástrós eftir Bubba Morthens, í flutningi Bubba og Bríetar.
Hvað var broslegast á árinu? Miðaldra fólk á harðahlaupum fyrir utan Laugardalshöll, eftir óvænt boð í fyrstu bólusetningu. Bóluefnasnobb, þar sem allir sem fengu Jansen bóluefnið upplifðu sig annars flokks og allir sem fengu Pfizer upplifðu sig í hópi sigurvegara í efsta lagi samfélagsins. Sigmundur Davíð að borða hrátt nautahakk á YouTube var svo með því skringilegra sem árið bauð upp á.
Hvers heldurðu að þú eigir eftir að sakna frá árinu 2021 – eða ekki? Ég mun sakna góða veðursins á Austurlandi. Held að Austlendingar séu samt dauðfegnir að vera lausir við okkur hin eftir innrásina í sumar, galtómar hillur í búðum og vöruskort á bensínstöðvum. Ég vil nota tækifærið og biðja Austlendinga afsökunar á mínum hlut í því öllu saman!
Varp ársins? Hlaðvarpið Eigin konur er varp ársins, fyrir að hrista upp í þjóðfélagsumræðunni með umfjöllun um kynferðismál og valdeflingu kvenna. Þáttaröðin Katla markaði tímamót í íslenskri sjónvarpsþáttagerð með framleiðslu sem var alfarið á vegum Netflix. Svo er ég mjög spennt fyrir Verbúðinni og Svörtusöndum sem á að frumsýna á RÚV og Stöð 2 milli jóla og nýárs. Af erlendum þáttum stóð bandaríska þáttaröðin Succession upp úr.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Búningsklefamenningu. Það er ekki lengur viðurkenndur hluti af góðu glensi að normalisera kvenfyrirlitningu með lélegum bröndurum. Eða fyrirlitningu gagnvart öðru fólki yfirleitt.
Hver var helsta lexía ársins? Við héldum að bóluefnin myndu leysa allan okkar vanda en þetta er víst ekki alveg búið. Þannig að lexía ársins er: It ain‘t over till it‘s over.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.