Árið 2021: Á heimsvísu stendur Jurgen Klopp upp úr!

Heiðar og Vala Bára á Tene. AÐSEND MYND
Heiðar og Vala Bára á Tene. AÐSEND MYND

Áskell Heiðar Ásgeirsson svarar í dag ársuppgjörinu í Feyki. Kappinn býr í Túnahverfinu á Króknum og er framkvæmdastjóri 1238 : Baráttan um Ísland auk þess sem hann er stundakennari við Háskólann á Hólum og Bræðslustjóri og þá er nú sennilega ekki allt upp talið. Hann notar þessi þrjú orð til að lýsa árinu 2021: „Skin og skúrir.“

Heiðar kemur frá Borgarfirði eystra og er giftur Króksaranum Völu Báru Valsdóttur en saman eiga þau fjórar dætur. Kappinn er naut „...með breiðan fót en stuttan.“

Hver er maður ársins? Þessi er erfið! Ég dáist af þeim konum sem hafa stigið fram og opnað umræðuna um kynferðisofbeldi, ég trúi að þær hjálpi til að búa til betri heim fyrir dætur mínar og síðar þeirra afkomendur. Ég er mjög sáttur við hvernig yfirvöld okkar hafa tekist á við Covid, gæti þar nefnt Þórólf og Svandísi. Í vali Feykis valdi ég Árna á Wok fyrir hans framlag til samfélagsins en á heimsvísu stendur auðvitað Jurgen Klopp upp úr!

Hver var uppgötvun ársins? Þetta er árið sem ég varð aðdáandi Bríetar, hún kom með frábæra tónleika til okkar í Gránu, kom svo fram á Bræðslu hjá okkur og ég endaði árið á að sjá hana á jólatónleikum á Akureyri. Frábær lagasmiður, syngur vel, spilar á hjóðfæri og þá hefur hún afar góða nærveru.

Hvað var lag ársins? Ekki alveg nýjasta lagið en flutningur Egils Ólafssonar og Magna bróður á Slá í gegn með Stuðmönnum í Bræðslunni sl. sumar er eftirminnilegur.

Hvað var broslegast á árinu? Ætli það séu ekki allir sérfræðingarnir sem stíga fram í hvert skipti sem eitthvað kemst í hámæli í dægurumræðunni. Þau sem kunna einn daginn alveg að ráða niðurlögum Covid 19, næsta dag vita þau allt um kynferðisbrot og svoleiðis heldur það áfram.

Hvers heldurðu að þú eigir eftir að sakna frá árinu 2021 – eða ekki? Kannski ekki beint sakna, en sumarið 2021 var veðurfarslega eins og maður vill hafa öll sumur á Íslandi. Þá var líka veirufrí sem gaf kost á frábærum samverustundum með góðum vinum og við náðum að halda yndislega Bræðslu.

Varp ársins? The Anfield Wrap, hlaðvarp Liverpool aðdáenda, ómissandi fyrir alla sem unna góðum fótbolta.

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Kórónuveiran, Covid 19 eða hvað sem við köllum hana, hún mætti gjarnan brenna upp og hverfa um þessi áramót, en mér verður nú tæplega að þeirri ósk.

Hver var helsta lexía ársins? Enn eitt árið var það sú sama, maður má ekki taka því sem maður hefur sem gefnu, lífið er núna og mikilvægt að njóta líðandi stundar með fjölskyldu og vinum. Eða eins og strákur frá Liverpool sagði eitt sinn: Life is what happens while you´re busy making other plans!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir