Árbæingar rændu Stólana á köldu sumarkvöldi á Króknum
Tindastólsmenn tóku á móti liði Elliða úr Árbænum á gamla góða grasvellinum á Króknum í kvöld en um var að ræða fyrsta leikinn í 14. umferð 3. deildar. Lið Tindastóls er í fallsæti og þurfti því nauðsynlega að sækja sigur. Heimamenn höfðu talsverða yfirburði í leiknum, voru mun betra liðið og Árbæingar nánast úti á þekju í sóknarleik sínum í allt kvöld. Þeir fengu hins vegar eitt dauðafæri í leiknum og skoruðu úr því á meðan Stólarnir gátu með engu móti komið boltanum í markið. Úrslitin því ógnarsvekkjandi 0-1 tap og ljóst að Tindastólsmenn þurfa að finna sinn Lukku-Láka ekki síðar en strax.
Leikið var í norðansúld á Króknum í kvöld en aðstæður á grasvellinum virtust þó hinar bestu til að spila fótbolta. Lið Tindastóls var miklu sterkara en lið gestanna á upphafsmínútunum og eftir tíu mínútna leik hafði Pape Mamadou Faye þegar klikkað á tveimur dauðafærum, einn á móti markmanni Elliða. Um miðjan hálfleikinn fékk hann aftur upplagt færi en eftir skógarhlaup markmannsins barst boltinn til Pape á miðjum vallarhelmingi gestanna og enginn í markinu. Hann hitti hins vegar ekki markið. Gestirnir komust betur inn í leikinn eftir því sem á leið, höfðu norðangoluna í bakið, en náðu ekki að ógna marki Tindastóls svo neinu næmi. Staðan því 0-0 í hálfleik.
Stólarnir byrjuðu síðari hálfleik af krafti en gekk nú verr að skapa sér almennileg tækifæri. Gestirnir spiluðu vörnina betur en í fyrri hálfleik en uppspil þeirra var veikt og þeim gekk illa að sækja að marki Tindastóls. Stólarnir komu boltanum reyndar í mark gestanna um miðjan síðari hálfleik við mikinn fögnuð áhorfenda en aðstoðardómari taldi boltann vera kominn aftur fyrir endamörk þegar hann var sendu fyrir mark Elliða. Skömmu síðar sendu gestirnir langan bolta fram sem einn miðjumanna Stólanna misreiknaði, Elliðar náðu í kjölfarið góðu þríhyrningaspili og leikmaður þeirra slapp í gegnum vörn heimamanna og sendi boltann af öryggi í fjærhornið hjá Atla Degi í marki Tindastóls – algjörlega gegn gangi leiksins. Stólarnir pressuðu af miklum móð síðustu mínúturnar en þegar komið var upp að vítateig gestanna skorti gæðin til að skapa alvöru færi og gömlu góðu gredduna til að vinna boltann þegar hann loks kom inn í boxið. Þó markið héngi í loftinu þá kom það ekki og leikmenn Tindastóls fara því með enn eitt tapið á koddann í kvöld.
Það var ekki margt hægt að finna að spili Tindastóls í kvöld. Boltinn gekk oft vel og liðið bjó til margar álitlegar stöður. Það má geta sér þess til að lítið sjálfstraust sé í liðinu eftir síðustu tapleiki og erfiða stöðu liðsins og það hafi áhrif á frammistöðuna upp við mark andstæðinganna. Að öðrum ólöstuðum þá áttu Konni og Cisco fínan leik en Konni spilaði í vörninni að þessu sinni og gat dreift boltanum vel úr þeirri stöðu – átti varla feilsendingu.
Nú þurfa Stólarnir að snúa þessu lánleysi við í einum grænum, gæðin eru til staðar en staðan orðin erfið í botnslagnum. Út með kassann – koma svo Stólar!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.