Árangursríkar eftirleitir á Eyvindarstaðarheiði
Fyrir skömmu sagði Feykir frá gangnamönnum á mótorfákum og torfærutrölli með Guðmund Valtýsson í fararbroddi á Eyvindarstaðarheiði og nú fyrir rúmri viku var farinn annar leiðangur, í slæmu færi víða en ágætis veðri þegar á leið daginn. Að sögn Guðmundar var dagurinn heilladrjúgur og tíðindamikill hjá þeim félögum.
Fyrstu lömbin sem fundust voru á svokölluðum
Hraunum, suður og vestur frá Sátu.
Mynd: Jón Gissurarson.
Fyrst fundust tvö lömb fram á Hraunum á Eyvindarstaðaheiði, suður og vestur frá Sátu, frá Miðdal í Skagafirði, og segir Guðmundur að það hafi glatt leiðangursmenn mikið að rekast á þau í algerri bjargleysu og koma þeim á bílinn. Á heimleið, seinni part dags, leitaði flokkurinn niður í svokallaðar Svörtutungur, þar sem fremstu grös á Eyvindarstaðaheiði er að finna, og fundu þar sex kindur. „Þetta var svört ær frá Stóradal í Svínavatnshreppi með tvo fallega, ómarkaða lambhrúta. Einnig fylgdu lömbin hennar frá því í fyrra, hvítur hrútur og svört gimbur. Þá var í hópnum svarbotnótt veturgömul gimbur frá Ytra-Vallholti í Skagafirði og var hún einnig útigengin. Móðir hennar kom ekki af fjalli síðasta haust og vantaði hana með tveimur gimbrum, botnóttri og hvítri. Kom svo ærin núna í haust og þarna reyndist vera önnur gimbrin frá því í fyrra.“ Að sögn Guðmundar var Stóradals-Surtla, eins og hann kallar þá svörtu, flutt að heiman sumarið 2020 með sín fallegu lömb þá.
„Mér skilst að nokkuð margt fé hafi verið flutt fram fyrir Seyðisá um vorið enda kom fjöldi fjár frá bæjum vestan Blöndu í fyrra. Þá fara þær niður með Seyðisá og í Blöndu heldur en að fara út fyrir Seyðisá. Svona gerist þetta álít ég.“
Guðmundur segir að lambhrútarnir sem fylgdu Stóradals-Surtlu hafi verið drjúgvænir og veturgömlu kindurnar líka og hrúturinn ekki árennilegur þar sem hann renndi á hjólið hjá Jóni Gissurarsyni. Þá renndi hann á Jón líka, þrátt fyrir að vera orðinn dasaður þegar átti að ná honum við Svörtukvísl, en Jón nær þá að grípa í hrútinn og halda þangað til hjálp barst til að koma koma honum á pallinn á bílnum. Komust leiðangursmenn svo heilu og höldnu til byggða, glaðir og kátir með árangur dagsins.
Stóradals-Surtla með sínum fallegu
afkvæmum komin í hús Hjá Guðmundi
á Eiríksstöðum í Svartárdal.
Mynd: Jakob Víðir Kristjánsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.