Aparóla Freyjanna formlega afhent skagfirskum æskulýð

Stórum áfanga í uppbyggingu fjölskyldugarðs Kiwanisklúbbsins Freyju í Skagafirði var náð í dag þegar fyrsta leiktækið var formlega afhent æskufólki til notkunar en 4. bekkur Árskóla á Sauðárkróki mætti til að veita rólunni formlega viðtöku. Myndir: PF.
Stórum áfanga í uppbyggingu fjölskyldugarðs Kiwanisklúbbsins Freyju í Skagafirði var náð í dag þegar fyrsta leiktækið var formlega afhent æskufólki til notkunar en 4. bekkur Árskóla á Sauðárkróki mætti til að veita rólunni formlega viðtöku. Myndir: PF.

Það voru glaðir krakkar sem tóku formlega við aparólunni, sem Kiwanisklúbburinn Freyja stóð fyrir að komið yrði upp í fyrirhuguðum leikvelli sunnan Eyrartúns í Túnahverfi á Sauðárkróki í hádeginu í dag. Verkefnið er unnið í samstarfi við Skagafjörð og segir Freyja Rut Emilsdóttir, forseti klúbbsins, það einkar ánægjulegt að taka fyrsta leiktækið í notkun.

Freyja Rut Emilsdóttir, forseti klúbbsins,
afhendir aparóluna formlega.

Það voru nemendur 4. bekkjar Árskóla sem mættu sem fulltrúar skagfirskrar æsku til að taka formlega við aparólunni og létu þeir sér ekki leiðast að bruna á hlaupakettinum þá stund sem þeir stöldruðu við.

Kiwanisklúbburinn Freyja hefur staðið fyrir fjölbreyttum styrktarverkefnum á undanförnum árum og segir Freyja Rut að stærsta verkefni klúbbsins sé þó án efa Freyjugarðurinn, sem hefur það að markmiði að stuðla að ánægjulegum samverustundum barna og foreldra og um leið efla útiveru og hreyfingu í anda heilsueflandi samfélags. „Við erum glaðar og þakklátar fyrir þann stuðning sem við höfum fundið fyrir í samfélaginu og höldum ótrauðar áfram að safna fyrir fleiri tækjum. Næsta skref í þeirri vegferð er sala á blómum í upphafi aðventu, en blómasala hefur verið okkar helsta fjáröflun á undanförnum misserum,“ segir hún.

Freyjurnar Freyja Rut Emilsdóttir, Ása Björg Ingimarsdóttir,
Hrefna Gerður Björnsdóttir, Ragna Fanney Zoega Gunnarsdóttir
og Steinunn Gunnsteinsdóttir ásamt Vali Valssyni verkefnisstjóra,
Steini Sveinssyni sviðstjóra veitu- og framkvæmdasviðs
og Sigfúsi Inga Sigfússyni sveitarstjóra.

Nokkrar tafir urðu á framkvæmdum við aparóluna og segir Valur Valsson, verkefnastjóri nokkrar ástæður fyrir því. „Kiwanisklúbburinn Freyja lét vinna hönnun af leikvelli á svæðinu við Gilstún og enda Eyrartúns, aparólan var inn á þessu leiksvæði. Ekki náðist svo sátt um staðsetningu leiksvæðisins og þar af leiðandi aparólunnar við alla íbúa í nágrenni þessa leiksvæðis. Ný staðsetning fyrir aparóluna var fundin til að koma henni í notkun.

Einnig var erfitt að fá starfsmenn í verkið vegna annarra mikilvægra verkefna. Núna er hún komin í gagnið. Við fögnum því og vonum að hún verði mikið notuð og hleypi enn meira lífi í svæðið hjá börnum jafnt sem fullorðnum,“ segir Valur.

Tengd frétt: Viljayfirlýsing undirrituð um uppbygging fjölskyldugarðs á Sauðárkróki

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir