Ánægja með áfrýjun dóms á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga
Húnahornið segir frá því að byggðarráð Húnaþings vestra hafi lýst yfir ánægju með að niðurstöðu dómsmáls Reykjavíkurborgar á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, vegna úthlutana úr sjóðnum, hafi verið áfrýjað Enda leiði niðurstaða dómsins, standi hann óbreyttur, til skerðingar framlaga allra sveitarfélaga í landinu. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í síðasta mánuði var íslenska ríkið dæmt til að greiða Reykjavíkurborg tæpa 3,4 milljarða ásamt vöxtum.
„Undir lok árs 2019 gerði Reykjavíkurborg kröfu á hendur íslenska ríkinu um greiðslu tiltekinna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir árin 2015-2019. Þar sem hvorki náðist samkomulag né viðurkenning á greiðsluskyldu ríkisins höfðaði Reykjavíkurborg í lok árs 2020 mál á hendur íslenska ríkinu annars vegar vegna almenns jöfnunarframlags vegna reksturs grunnskóla og hins vegar framlag vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál.
Í fundargerð byggðarráðs Húnaþings vestra frá því í gær segir: „Það skýtur skökku við að stærsta sveitarfélag landsins, sem er í allt annarri aðstöðu til að afla tekna en þau minni, geri slíka kröfu til framlaga í sjóðinn sem hefur það hlutverk að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga. Auk þess gengur krafa Reykjavíkurborgar gegn samkomulagi sem gert var árið 1996 við flutning grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga.“
Húnahornið áréttar að á meðan málið er í ferli verður beðið með framlagningu frumvarps um heildarendurskoðun laga um sjóðinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.