Alþjóðlega brúðulistahátíðin Hvammstangi International Puppetry Festival fer fram 7.-9. október
Alþjóðlega brúðulistahátíðin Hvammstangi International Puppetry Festival – HIP Fest – fer fram í annað sinn dagana 7.-9. október nk. Á hátíðina kemur fjöldi erlendra listamanna og brúðuleikhópa sem bjóða upp á fjölda sýninga og vinnusmiðja, auk fyrirlestra og kvikmyndasýninga með umræðum við listamennina á eftir, á meðan á hátíðinni stendur.
Í tilkynningu frá Gretu Clough, stjórnanda Handbendis Brúðuleikhúss, er lögð sérstök áhersla á tengslamyndun í ár og faglega þróun, samhliða frábærum sýningum fyrir almenning.
„HIP Fest er einstök viðbót í menningarlíf landsmanna, enda eina brúðulistahátíð landsins. HIP Fest var valinn menningarviðburður ársins á Norðurlandi vestra árið 2020 og skipuleggjandi hátíðarinnar, Handbendi – Brúðuleikhús, er núverandi Eyrarrósarhafi, en Eyrarrósin eru verðlaun sem veitt eru framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni,“ segir í tilkynningunni.
Jafnframt kemur fram að þrátt fyrir verulegar samkomutakmarkanir á hátíðinni fyrstu tvö árin sem hún hefur verið haldin tókst hún einstaklega vel, við mikla ánægju þátttakenda og áhorfenda. Brúðulistin er fjölbreytt og fornt listform sem stöðugt haslar sér meiri völl í menningarlífi landsins. Á hátíðinni má líta fjölbreyttar sýningar fyrir alla aldurshópa, sem nýta sér öll blæbrigði listformsins.
Miðasala fer fram á tix og dagskrá hátíðarinnar má gaumgæfa á heimasíðu hennar, thehipfest.com.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.