Alræmd rjúpa og marineraðar bringur

Kristbjörg Kemp og Guðni Kristjánsson voru með uppskriftir í Feyki í febrúar 2007 og líklegt er að Guðni hafi bæði eldað og aflað matarins enda segir í inngangi: -Konan mín segir að ég sé kokkur af guðsnáð, segir Guðni Kristjánsson en hann ásamt eiginkonu sinni Kristbjörgu Kemp á heiðurinn á uppskriftum vikunnar. -Ég er ekki mikið fyrir að fylgja uppskriftum, en styðst þó við hugmyndir sem ég sæki í þess háttar bókmenntir. Ég skora á félaga minn og nágranna Snorra Styrkársson og konu hans Kristrúnu Ragnarsdóttur til að koma með einhverjar af sínum eðal uppskriftum.

 Forréttur

Alræmd rjúpusúpa

2 úrbeinaðar rjúpur
1/2 lítri af rauðvíni (ekki besta rauðvínið í húsinu)
1 laukur
1 rauðlaukur
nokkrar gulrætur
1 sellerystöngull
u.þ.b. 100 gr selleryrót
u.þ.b. 100 gr sætar kartöflur
villibráðakraftur
1-2 msk rjómamysingur
4-6 einiber
2 blöð lárviðarlauf
2-3 msk tyttuberjasulta
rjómi eftir smekk.
Salt, pipar og villibráðakrydd eftir smekk

Aðferð:
Læri, háls, bein og innmatur eru steikt á pönnu í smjöri. Kryddað. Vegna fyrirferðar er gott að krydda og síðan baka stærstu beinin augnablik í ofni við háan hita. Sett í pott ásamt rauðvíni, u.þ.b. 1 l af vatni, grænmeti, krafti, sultu, einiberjum og lárviðarlaufi. Soðið við vægan hita í 1 og 1/2 klst. „Hratið“ sigtað frá, rjóma og mysingi bætt við, suðu hleypt upp. Rjúpubringur steiktar í smjöri og kryddaðar eftir smekk, u.þ.b. 2 mín. á hvorri hlið. Skornar niður í hæfilega munnbita og settar út í súpuna. Súpan er borin fram með góðu nýbökuðu brauði. Ef súpan á að vera “tær” er helmingnum af grænmetinu haldið eftir og hann soðinn í 15 mín eftir að “hratið” hefur verið sigtað frá.

Aðalréttur
Marineraðar skarfabringur

1 dl hvítvín
3 msk soja sósa
2 hvítlauksrif
Svolítið af piparrót (u.þ.b. einn cm)
1 msk sætt mangó
Sett í matvinnsluvél og maukað
Skarfabringur lagðar í löginn (u.þ.b. 12 klst)

Bringurnar steiktar á pönnu í ca 3-4 mín. á hvorri hlið og settar í ofn við 200°c í 10-15 mín.

Sósa:
1/2 dl af mareningarleginum ásamt 1/4 l rjóma og 1 tsk gráðosti sett á pönnuna og soðið niður. Smakkað til með pipar og salti. Borið fram með kartöflum, soðnu brokkólí og steiktu grænmeti s.s. sellerýrót, kúrbít, sveppum, lauk og gulrótum. Rifsberjahlaupið klikkar heldur ekki.

Eftirréttur
Sacherrterta

Hnuplaði þessari uppskrift frá frúnni. Tertan er hreint afbragð eftir matinn með sterku og góðu kaffi. 

150 gr suðusúkkulaði
100 gr smjörlíki
2 dl sykur
4 eggjarauður
¾ dl hveiti
½ tsk lyftiduft 

Aðferð:
Smjörlíki og sykur þeytt saman. Eggjarauðum bætt í. Súkkulaðinu, sem búið er að bræða yfir vatni, bætt í. Hveitið og lyftiduftið út í. Eggjahvíturnar þeyttar vel og bætt varlega í síðast (ekki í hrærivélinni). Einn botn. Bakaður við 175 gráður a.m.k. í ½ klst. Ofan á botninn smyr maður apríkósumarmelaði og efst kemur svo bráðið súkkulaði og 1 msk. smjörlíki.

Njótið vel!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir