Alltaf einhver ævintýr :: Sauðburður í september
Nú er sá tími ársins þegar bændur heimta fé sitt úr afréttum landsins og oftar en ekki kemur færra heim en vonast er eftir. Alls konar afföll geta orðið af ýmsum ástæðum og því skemmtilegt að geta sagt frá því þegar fjölgar í hópnum.
Þannig var að þegar Sigurður Steingrímsson, fyrrum bóndi á Ysta-Mói í Fljótum og núverandi frístundabóndi á Nöfum á Sauðárkróki, kom úr Laufskálaréttum sl. laugardag ákvað hann að keyra á Nafirnar og athuga stöðuna á kindahópnum og sá þá eitthvað óvenjulegt niðri á túninu. Sigurður segir að það séu alltaf einhver ævintýr. „Ég tók upp kíkinn og sá að hún var borin sú flekkótta sem var geld í vor, þremur lömbum. Og ekki neitt smá lömb,“ sagði Sigurður þegar Feykir hafði samband en mjög óvenjulegt er að kindur beri á þessum árstíma. „Þetta er sjaldgæft og sérstaklega þrílembt. Hún var reyndar þrílembdur gemlingur í fyrra en tvö þeirra voru dauð en það sem lifði varð stórt eða um 22 kíló.“
Nafnlausa-flekka með nýbornu afkvæmin
og hjá þeim stendur eigandinn stoltur enda
þremur lömbum ríkari en fyrir fáeinum dögum.
Mynd: PF.
Sigurður segir að Andrés bóndi í Tungu hafi farið á mánudeginum áður fram í Hryggjardal og hafi komið með um 50 kindur. „Þessi var með í þeim hópi en ég fékk fimm þá. Hann sagði að hún hefði verið svo latræk og þetta er náttúrulega skýringin. Hún hafði verið þrjá daga hér heima þegar hún bar. “
Meðgöngutími kinda er 21 vika sem gerir tæpa fimm mánuði svo reikna má með að ærin hafi komist í hrút um mánaðamótin apríl maí. Sigurður segir að hún hafi verið sónuð geld í vetur svo hún fékk að fylgja hrútunum út á tún og þar hafi hún fengið.
Kindina, sem enn er nafnlaus, keypti Sigurður í Hjarðarfelli á Snæfellsnesi en alls eru það tuttugu ær sem Sigurður fóðrar á Nöfum svo það er eitthvað í að líta. „Þetta heldur manni gangandi svona á gamals aldri,“ segir hann en nú bætist aðeins á gátlistann þar sem kindin er komin inn enda hefur veðrið ekki verið neitt sérstakt fyrir nýborin lömb.
Eins og áður hefur komið fram bjó Sigurður í Fljótum áður en hann flutti á Krókinn 2018 og þá með nokkuð fleiri kindur eða um 200 hausa. Skemmtilegt er frá því að segja, fyrst verið er að ræða um nýfædd lömb í september, að síðasta haustið sem hann bjó á Ysta-Mói bar ein ærin í september. „Hún var með einu lambi sú. Ég held að þetta sé sérstakt að það komi þrjú, þetta er náttúrulega ekki eðlilegur burðartími.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.