Alheimsfrumsýning á Himinn og jörð – Viðtal við Ármann Guðmundsson höfund og leikstjóra
Leikflokkur Húnaþings vestra er nú á lokametrunum í undirbúningi sínum á alheimsfrumsýningu á söngleiknum Himinn og jörð eftir Ármann Guðmundsson en söngleikurinn var saminn fyrir Leikflokkinn við 16 lög Gunnars Þórðarsonar. Um 40 manns hafa tekið þátt í undirbúningi sýningarinnar enda verkin ófá og sagði í tilkynningu Leikflokksins fyrr á árinu að meðal annarra hefðu nokkrar stúlkur séð um barnapössun enda ófáir foreldrar sem eru þátttakendur verksins.
Kór- og hljómsveitaræfingar hófust í byrjun janúar og leikæfingar seinni hluta þess mánaðar. Höfundurinn er jafnframt leikstjóri verksins en kór- og hljómsveitarstjóri er Ingibjörg Jónsdóttir frá Syðsta-Ósi í Miðfirði.
Himinn og jörð segir frá tilraunum geimvera frá plánetunni Gakóvest til að komast yfir ægilegasta gereyðingarvopn í alheiminum sem vill svo til að er á jörðinni, því hvergi annarstaðar er ástin sterkari. Ástin er þó enn hættulegri en geimverurnar gera sér grein fyrir, segir á adgangsmidi.is, þar sem miðasalan fer einmitt fram en sýningarnar um páskana verða hvern dag frá miðvikudeginum 5. apríl og fram á mánudaginn 10. apríl og er ætlunin að húsið opni kl. 20:00 en sýningar hefjast kl. 21:00.
Í samvinnu við Hótel Hvammstanga, Hótel Laugarbakka og Sveitasetrið Gauksmýri býður Leikflokkurinn upp á páskatilboð á gistingu og morgunmat ásamt miðum á söngleikinn. Veitingastaðurinn Sjávarborg mun svo vera með leikhústilboð í gangi á meðan á sýningunum stendur en nánari upplýsinga er hægt að nálgast á midi.is.
Ljóti hálfvitinn
Eins og að framan greinir er höfundur Himins og jarðar Ármann Guðmundsson einnig leikstjóri. Feykir sendi honum nokkrar spurningar til að glíma við og byrjaði a að spyrja hver maðurinn væri.
„Ég er fæddur og uppalinn á Húsavík en hef búið í Reykjavík í rúma þrjá áratugi. Ég hef fengist við ýmislegt en í seinni tíð hef ég mest starfað sem leiðsögumaður. Meðfram því spila ég tónlist með Ljótu hálfvitunum og fleiri hljómsveitum og leikstýri hjá áhugaleikfélögum víða um land. Auk þess hef ég samið á þriðja tug leikrita, bæði fyrir atvinnu- og áhugaleikhús.
Þú semur og leikstýrir Himinn og jörð fyrir Leikflokk Húnaþings vestra, hver voru þín fyrstu viðbrögð þegar þau leituðu til þín um að semja þennan söngleik?
„Þau voru auðvitað bara að segja já endilega. Upphaflega stóð reyndar bara til að ég semdi verkið en þegar ég var svo beðinn um að leikstýra líka var ég meira en til í það.“
Um hvað fjallar Himinn og jörð?
„Þetta er söngleikur með gamansömu ívafi. Geimverur frá plánetunni Gakóvezt senda tvo útsendara til Jarðar í því skyni að komast yfir ástina sem ætlunin er að nýta sem vopn gegn óvinaplánetu. Í smábæ á Íslandi finna þeir hið fullkomna skotmark, ungan mann sem er í bullandi ástarsorg þar sem stóra ástin í lífi hans var að segja honum upp. Það flækir málin að óvinaplánetan sendir líka sinn útsendara í sömu erindagjörðum. Allt fer þó einhvern veginn að lokum.“
Ekki veit ég hvað Gunnar Þórðarson hefur samið mörg lög, hljóta að skipta hundruðum, hvernig gekk að velja réttu lögin í söngleikinn og hversu mörg notar þú?
„Ég fékk í byrjun lagalista til að vinna út frá sem innihélt nánast öll hans þekktustu lög og notaði þann lista að mestu óbreyttan. Bætti við einu lagi, sem reyndar varð titillag verksins, og tók eitt út.
Hvernig hefur gengið að koma þessu öllu saman á sviðinu?
„Í raun hefur allt gengið samkvæmt áætlun ef frá er talið að ætlunin var að frumsýna þetta fyrir ári síðan en síðasta Covid-bylgjan varð til þess að ákveðið var að taka enga sénsa og fresta þessu um ár. Þegar það var ákveðið var ég búinn að skipa í hlutverk og þetta varð til þess að einhverjir þurftu að hætta við að vera með en það gekk vonum framar að fylla í þau skörð. Síðan æfingar hófust hefur allt meira og minna gengið samkvæmt áætlun og auðvitað hjálpar að leikflokkurinn er stórhuga og réð einn af betri danshöfundum landsins, Chantelle Carey, til að sjá um dansatriði.
Við hverju mega leikhúsgestir búast?
„Vonandi því að skemmta sér konunglega. Ég vil meina að þetta sé skemmtilegt verk, þótt ég sé kannski ekki alveg hlutlaus þar, og leikflokkurinn er fullur af hæfileikabúntum sem gera því frábær skil og þá er ég að tala um jafnt innan sviðs sem utan. Svo geta leikhúsgestir gengið að því vísu að tónlistin er með því besta sem hægt er að bjóða upp á á sviði.“
Þar sem þetta viðtal mun birtast í Fermingarblaði Feykis er nauðsynlegt að spyrja um þá hluti líka. Varst þú tekinn inn í samfélag kristinna á sínum tíma með fermingu, og ef svo, hvað er eftirminnilegast frá deginum?
„Ég fermdist í Húsavíkurkirkju árið 1982. Athöfnin var nú tíðindalítil og ekki sérlega eftirminnileg en fermingarmyndatakan þeim mun viðburðaríkari því þar leið yfir mig alveg upp úr þurru.“
Ef þú stæðir í sömu sporum í dag, myndir þú láta fermast?
„Nei, það myndi ég ekki gera, fljótlega eftir að ég fermdist og hafði fengið fermingargræjurnar í hendur missti ég alla trú á tilvist æðri máttarvalda og hef verið mjög sannfærður trúleysingi síðan. En þegar ég hugsa út í það þá vantar mig reyndar nýjar græjur.“
Hvernig finnst þér best að verja páskafríinu?
„Páskafríið í ár stefnir í að verða eins gott og það getur orðið. Báðir synir mínir, sem búa í Noregi, koma heim til Íslands um páskana ásamt kærustum og með öðrum þeirra bæði barnabörnin mín. Það verður líklega ekki toppað.“
Eitthvað að lokum?
„Já allir að drífa sig í leikhús á Hvammstanga um páskana!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.