Aldrei verður hægt að laga Siglufjarðarveg almennilega

Frá Siglufjarðarvegi 5. febrúar 2021. MYND: ÓAB
Frá Siglufjarðarvegi 5. febrúar 2021. MYND: ÓAB

Á Vísi.is er sagt frá því að Vegagerðin hafi í byrjun október lýst yfir viðvarandi óvissustigi á Siglufjarðarvegi vegna jarðskriðs og hættu á grjóthruni allt árið um kring. Fyrrverandi eftirlitsmaður telur að aldrei muni vera hægt að laga veginn almennilega, finna verði varanlegri lausn.

Allur hluti vegarinns sem liggur um Almenninga er flokkaður sem skriðuhættusvæði og þegar því lýkur við Mánárskriður tekur við grjóthrunssvæði alla leið inn í Siglufjörð. Ástandið á veginum er að sjálfsögðu afar bagalegt fyrir þá sem þurfa að fara um svæðið; Siglfirðinga sem heimsækja eða fara um Skagafjörðinn og til dæmis Fljótamenn sem þurfa að sækja þjónustu á Sigló. Þá hefur umferð um Tröllaskaga aukist með tilkomu Héðinsfjarðarganganna enda spennandi og fallegt svæði sem höfðar til ferðalangsins.

Í frétt Vísis.is kemur fram að í viðbragðsáætlun Vegagerðarinnar vegna hættu á veginum segi að þar aki að meðaltali 295 bílar á sólarhring. Þeir eru mun fleiri yfir sumartímann; 510 að meðaltali á dag en 130 á veturna.

Þær eru ófáar fréttirnar sem hafa birst á Feyki síðustu árin þar sem sagt er frá skriðuhættu á veginum, bæði þá vegna grjóthruns, jarðsigs, skriðuhættu og vegurinn ósjaldan ófær vegna snjóa eða snjóflóðahættu yfir veturinn. Vitað er til þess að fólk veigri sér við að fara veginn vegna ástands hans. Það er í raun ekki eftir neinu að bíða með að bora göng úr Fljótum í Siglufjörð.

Sjá frétt á Vísir.is > 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir