Aldrei fengið svör

-Mér þykir leitt að forseti bæjarstjórnar skuli fara með ósannindi, segir Jóna Fanney Friðriksdóttir, bæjarfullltrúi E-listans og fyrrverandi bæjarstjóri á Blönduósi en hún er afar ósátt við að núverandi Bæjarstjóri Blönduóss Arnar Þór Sævarsson fái hærri laun en hún fékk þegar hún gegndi bæjarstjórastöðunni.

 


Sagt var frá því hér á Feyki.is að Jóna Fanney sagði starfi sínu lausu í október árið 2007 og var í kjölfarið falið að ganga frá ráðningarsamningi við Arnar Þór Sævarsson, núverandi bæjarstjóra á sömu kjörum og fráfarandi bæjarstjóri. Hún hafi svo komist að því að Arnar Þór væri með 12-15% hærri laun en um var talað. Jóna Fanney vill að ráðningarsamningur hans verði lagður fyrir bæjarstjórn enda er gert ráð fyrir því í lögum og þannig var það í hennar tilviki. Þetta telur Jóna Fanney vera mismunun í launum og skýrt bort á jafnréttislögum.

Á mbl.is segir Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar að allt útlit væri nú fyrir að meirihluti E-lista í bæjarstjórn Blönduósar falli. Sagði hann einnig að miklir samstarfsörðugleikar hafi komið upp á milli Jónu Fanneyjar Friðriksdóttur, fyrrum bæjarstjóra, og þriggja annarra fulltrúa E-listans í bæjarstjórn. Nú sé því allt útlit fyrir að samstarfinu við hana verði slitið.
Aðspurð um þessi ummæli Valgarðs vildi Jóna Fanney ekkert tjá sig. -Það er bæjarstjórnarfundur á morgun og ég geri ráð fyrir að hann verði ansi fróðlegur. Ég ætla að leyfa hlutunum bara að gerast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir