„Aftast í kristalskúlunni sjáum við jafnvel 0-1 sigurmark sem mun sjokkera íslenskt knattspyrnusamfélag“

Verður ástæða til að kveikja á blysum í Húnavatnssýslu á morgun? MYND AF AÐDÁENDASÍÐUNNI
Verður ástæða til að kveikja á blysum í Húnavatnssýslu á morgun? MYND AF AÐDÁENDASÍÐUNNI

Það er lítið eitt eftir af fótboltasumrinu. Tindastólsfólk hefur haft ástæðu til að gleðjast þar sem strákarnir komust upp um deild og stelpurnar héldu sætinu í Bestu deildinni. Það verður hins vegar langur laugardagur hjá aðdáendum Kormáks/Hvatar sem munu eflaust naga neglur á meðan það ræðst hvort það verða knatttröllin úr KF, Garðbæingar í KFG eða þeirra eigin hetjur í Kormáki/Hvöt sem þurfa að bíta í það súra epli að falla úr 2. deild í þá þriðju. Lokaumferðin er á morgun. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir ónefndan fulltrúa Aðdáendasíðu Kormáks.

Venju samkvæmt voru svörin í hressari kantinum og hvergi gefið eftir. Rétt er að taka fram að Húnvetningar mæta á morgun liði Víkings á Ólafsvík sem eru að berjast fyrir sæti í Lengjudeildinni á meðan hvorki hefur gengið né rekið upp á síðkastið hjá Kormáki/Hvöt. Lið KF mætir hins vegar liði Hattar/Hugins á Ólafsfirði sem hefur að litlu að spila. Það er því margt sem þarf að koma saman til að Húnvetningar haldi sæti sínu í 2. deild en þeir eru stigi ofar en KF fyrir lokaumferðina.

Hvernig leggst lokaumferðin í Aðdáendasíðuna, hafa menn trú á sínum mönnum? „Ef það er eitthvað sem Aðdáendasíða Kormáks á í bílförmum þá er það trúin á félagið og leikmennina. Hver man ekki eftir markmannslausum bleikliðum í fyrra, þegar Uros Duric missti vatnsflösku í Sandgerði og ófrægingarvél Suðurnesjamanna fór á yfirsnúning? Fengu serbneska séntilmanninn dæmdan í fordæmalaust bann. Aadnegard steig þá upp og hélt búrinu í lagi í síðustu leikjumum og upp fórum við. Já, hver man það ekki? Liðið hefur leikið á Íslandsmóti í 12 ár og sagan er full af atvikum þar sem menn stíga upp þegar á þarf að halda. Það er verðmætt að fá varnarlínuna til baka, en þeir Papa, Acai fyrirliði, Sergio og Mateo hafa sýnt það í sumar að þeir eru ein albesta lína deildarinnar.“

Er búið að hafa samband austur til að reyna að trekkja Hött/Huginn í gang fyrir leikinn gegn KF á Ólafsfirði? „Við höfum akkúrat enga trú á Hetti Huginn í lokaumferðinni. Ekki bara af því að þeir eru búnir að tapa fimm leikjum í röð og hafa að engu að keppa, heldur líka af því að þeim er gert að mæta á versta völl Íslands síðan malarvellir lögðust af. Það er með ólíkindum að leikir skuli vera leyfðir í kartöflugarðinum í Ólafsfirði, en vegir KSÍ hafa reyndar sýnt sig margoft að vera órannsakanlegir. Við krossleggjum fingur og tær að þeir austanað hafi rænu og sæmd til þess að senda keppnishæft lið á völlinn og næli kannski í jafnt.“

Hvernig hefur sumarið í 2. deildinni verið? „Sumarið hefur verið skemmtilegt þó að stigin hafi látið á sér standa. Það sem hefur verið best er að sjá að við gefum öllum leik, þó að spámenn hafi hreint ekki verið á því fyrir mót. Okkur var spáð laaaaaangneðst,en höfum ekki enn heiðrað fallsæti með nærveru okkar í sumar. Það sem hefur kannski um leið verið erfiðast eru þessir leikir þar sem við höfum átt meira skilið en skilaði sér upp úr kjörkössunum eftir 90 mínútur. Má þar nefna þegar við yfirspiluðum Hauka á heimavelli og fengum bara eitt stig, fórum illa að ráðum okkar alveg í blálokin t.d. gegn Hetti Huginn heima, KFG úti og Ægi heima. Eitt stig út úr þessum þremur leikjum en hefðu að öllu eðlilegu átt að vera fimm. Annað sem var gríðarlega skemmtilegt var fyrir bæjarhátíðina Eldur í Húnaþingi þegar blásið var til FanZone og þakið feyktist af tjaldinu stemningslega séð. Allir í bleiku, blys eftir leik og þrjú stig á móti KF - gerist ekki betra. Svona stuðning eins og á Hvammstanga er ekki hægt að kaupa.“

Nú spilaði Kormákur/Hvöt heimaleikina ýmist á Blönduósi eða Hvammstanga. Er ekkert að því að eiga tvo heimavelli og hvernig var standið á þeim í sumar? „Á Íslandi eru fjögur lið sem leggja í það að vera með byggðasamlagsfyrirkomulag á Íslandsmóti. Ekkert þeirra liggur landfræðilega nærri því jafn langt á milli og Hvammstangi og Blönduós gera og ekkert þeirra býr við neitt í líkingu við innviðaskortinn sem Kormákur Hvöt þarf að gera sér að góðu. Fjarlægð í næsta gervigrasvöll frá Hvammstanga og yfir í Skagafjörð er þreföld á við það sem hinar dreifbýlistútturnar lifa með. Það er höldum við aðal vandamálið við það að eiga tvo heimavelli, sem lifna ekki við fyrr en undir miðjan júní. Þangað til er ekkert hægt að gera nema að útskýra fyrir erlendum leikmönnum að þeir séu mættir á jaðar hins byggða bóls og æfingar fari fram á sparkvellinum ef Skagafjörður er ekki með lausan tíma á plastið hjá sér. Eins og venjulega voru báðir vellirnir góðir þegar þeir ákváðu að mæta til leiks. Blönduósvöllur er jafnan bestur þegar mótið er að klárast, svo það er oft skrýtið að skella í lás fyrir veturinn þegar leikar standa graslega sem hæst. En svona er bara fótboltadagatalið á Íslandi í dag.“

Hvernig er spáin fyrir helgina? „Á helginni munu gerast undur og stórmerki þegar KF mun mistakast að leggja Hött/Huginn á heimavelli. Þar verður jafntefli og þá er það bara undir okkur sjálfum komið hvað við gerum á Snæfellsnesi. Það er bjargföst trú Aðdáendasíðu Kormáks að markmaðurinn Boa muni eiga stórleik í okkar marki, Acai og Sergio muni skalla allt sem að kjafti kemur í burtu og binda á Ólsara hnút. Aftast í kristalskúlunni sjáum við jafnvel 0-1 sigurmark sem mun sjokkera íslenskt knattspyrnusamfélag og spekingar velta fyrir sér taktískum meistaratöktum þeirra Ingva og Aco á fallegum laugardegi í september.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir