Afrakstur Jólamóts Molduxa sem ekki fór fram rúm hálf milljón
Ef allt hefði verið með eðlilegu sniðið þessa jóladaga hefði hið árlega Jólamót Molduxa í körfubolta farið fram í gær, það 27. í röðinni. Þar hefur fjöldi liða tekið þátt og átt saman skemmtilega stund og reynt með sér í íþrótt íþróttanna og allur afrakstur runnið til körfuboltadeildar Tindastóls. Svo var einnig nú þar sem lið og einstaklingar gátu skráð sig á mót sem ekki fór fram. Rúm hálf milljón safnaðist.
Alls voru tíu lið skráð til leiks fyrir utan tvö lið Molduxa og tuttugu einstaklingar og höfðu Molduxar heitið því að jafna hverja skráningu úr eigin sjóði. Gerðu þeir gott betur og lögðu 300 þúsund krónur á móti þeim 240 þúsundum sem komu inn frá öðrum liðum og einstaklingum. Í gær kom mótanefnd saman og lagði afraksturinn alls 543.000 krónur inn á reikning körfuboltadeildar Tindastóls og til að geta krýnt sigurvegara voru nöfn þátttakenda dregin úr lukkupotti en gullmedalíum fylgdu gjafabréf á veitingastaði á Sauðárkróki. Fór drátturinn fram í beinni útsendingu í gær eins og sjá má HÉR
Sigurliðið á Jólamóti Molduxa 2020 er Bústaðaálfarnir þar sem Hugi Halldórsson er í forsvari og fær liðið, auk gullpeninga um hálsinn, tíu manna flatbökuveislu á Hard Wok Cafe.
Svo var það Stefán Guðmundsson á Sauðárkróki sem hampaði sigri í einstaklingsgreinum og fær, auk gullverðlauna, kvöldmat fyrir tvo eftir kenjum kokksins á Gránu Bistro.
Molduxar þakka öllum sem tóku þátt með ósk um gleðilega hátið og von um bjarta körfuboltatíð á nýju ári.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.