Æfingaleikir í körfunni um helgina
Sannkallaður nágrannaslagur verður í Síkinu á Sauðárkróki annað kvöld er Þórsarar frá Akureyri mæta með sinn úrvalsdeildarmannskap og etja kappi við næstum fullskipað lið Tindastóls. Á laugardag munu svo Tindastóll og Höttur frá Egilsstöðum eigast við.
Tindastóll mun tefla fram nýjasta liðsmanni sínum, Mamadou Samb frá Senegal, en hann kom til landsins í gær en landi hans Seck Pape Abdoulaye mun vera fjarri góðu gamni. Hann mun hitta sitt nýja félag á æfingarmóti á Tenerife síðar í mánuðinum.
Þórsarar eru nýliðar í úrvalsdeild en ætla sér að hefja körfuboltann til vegs og virðingar á ný á Akureyri. Benedikt Guðmundsson, hinn margreyndi þjálfari, hefur innan sinna raða fyrrum Stóla, Ingva Rafn Ingvarsson og Darrel Lewis.
Hattarmenn hins vegar leika í 1. deildinni í ár eftir fall frá síðustu leiktíð. Búast má við að því uni þeir ekki og verði í úrvalsdeild að ári.
Föstudagseikurinn hefst klukkan 19:15 en kl 17:00 á laugardag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.