Aðgerðir hafnar á Syðri-Urriðaá

Ríkisútvarpið sagði frá því í morgun að seint í gærkvöldi hafi tekist að finna urðunarstað fyrir fé sem skera á á bænum Syðri-Urriðaá í Miðfirði. Haft er eftir yfirdýralækni, Sigurborgu Daðadóttur, að aðgerðir séu hafnar á bænum og féð verði aflífað á Hvammstanga. Þar sem eina sorpbrennsla landsins stríðir við bilanir þá þurfti að finna önnur úrræði og niðurstaðan því sú að hræin verða urðuð.

„Farið [verður] með féð í sláturhúsið á Hvammstanga, það aflífað, sýni tekin og hræin sett í lekahalda gáma og síðan verði þau flutt á urðunarstað,“ segir í frétt RÚV. Líkt og Feykir sagði frá í gær þá leit ekki út fyrir að urðunarstaður finndist sem hefði þýtt að bíða þyrfti með að skera féið niður fram á sumar.

Opinn upplýsingafundur vegna riðusmits í kvöld

Eðlilega eru bændur á svæðinu áhyggjufullir og óttast að riðuna sé víðar að finna á svæðinu. Opinn upplýsingafundur vegna riðusmits í Miðfjarðarhólfi hefur verið boðaður í kvöld kl. 20 á Hótel Laugarbakka. Þar munu fimm aðilar vera með framsögu; Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir og Sigurbjörg Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir sauðfjársjúkdóma MAST, Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð og loks Jóhanna Bergsdóttir, sálfræðingur. Að endingu verða almennar umræður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir