Að berja sér á brjóst í heilbrigðisumræðunni

Sú graf alvarlega staða sem hefur verið lýst á Landsspítalanum og á heilbrigðisstofnunum víða um land á sér langan aðdraganda. Hún  speglar  uppsafnaða vanrækslu, veruleikafirringu, einkavæðingadekur, skilningsleysi stjórnvalda og ranga forgangsröðun  undanfarinn áratug.  Þar eiga margir sömu sök.  Þess vegna er það dapurt  að fylgjast með tvískinnungshætti og kattarþvotti  ýmissa stjórnmálamanna í heilbrigðisumræðunni þessa dagana.

Átök í síðustu ríkisstjórn um heilbrigðismálin
 Forystumenn síðustu ríkisstjórnar eru þar engin undantekning síður en svo. Staðreyndin er sú að ástandið í heilbrigðismálum væri enn hrikalegra ef fjárlagafrumvörp fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði orðið óbreytt að lögum eins og ráðherrann lagði þau fram. Sem betur fer tóku þau nokkrum breytingum til batnaðar fyrir lokaafgreiðslu þingsins.

Um fátt var tekist meir á um í síðustu ríkisstjórn en niðurskurðinn til heilbrigðismála. Breytingarnar sem urðu frá frumvarpinu til lokaafgreiðslu fjárlaga  voru fyrst og fremst tilkomnar vegna öflugrar baráttu heimafólks og starfsfólks einstakra stofnana og landshluta auk einstakra þingmanna þáverandi stjórnarliðs.

Þessi  átök þekki ég vel bæði sem þingmaður og ráðherra. Ég hef áður lýst því að þingmenn yfirgáfu Vg  m.a  vegna andstöðu við stefnu forystunnar í heilbrigðismálum og studdu ekki fjárlagafrumvarpið með þeim mikla niðurskurði sem fjármálaráðherra lagði til.  Þeir vildu forgangsraða á annan veg.

Baráttan heldur áfram
Ég er viss um að íbúar og  hollvinir heilbrigðisstofnananna á  Sauðárkróki,  Blönduósi, Húsavík, Vestmannaeyjum , Selfossi, Ísafirði og víðar um land muni eftir fjöldafundunum,  slagnum sem tekinn var við ríkisstjórn Jóhönnu  og Steingríms um heilbrigðismálin.   Nú mun  þetta sama fólk, hollvinirnir, heimafólk og starfsfólk þurfa að taka slaginn áfram við ríkisstjórn  Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben.

Og forystumenn Samfylkingar og Vinstri grænna munu gleyma sinni eigin ríkisstjórnarsetu  og fara aftur  í gamla farið, tala hæst og hneykslast á þeim sem nú  eru í ríkisstjórn í stað þess að biðjast afsökunar á aðgjörðum sínum og aðgerðarleysi í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Það eru hinsvegar verkin sem þurfa að tala.

Hroki stjórnvalda
 Það var öllum ljóst sem vildu vita að það stefndi í hreint óefni hjá Landspítalanum. Og þegar Þjóðkirkjan og biskup Íslands  hvöttu til átaks  til stuðnings tækjakaupa á Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum um síðustu áramót  réðust  þáverandi formaður og varaformaður fjárlaganefndar, talsmenn ríkisstjórnarinnar á  biskup með dylgjum og óhróðri:

RUV 3. Jan. 2013. Undrast söfnun kirkju (SII)

Eyjan 3. Jan. 2013. Hvað á Sigríður Ingibjörg við?

Heimasíða Björns Vals 3. Jan. 2013

Mbl.is 3. Jan. 2013. Björn Valur og innanmein kirkjunnar

Nú koma svo fulltrúar fyrri ríkisstjórnar inn  í  umræðuna fullir vandlætingar og  uppmálaðir helgislepjunni.

Þarf þjóðarátak og þjóðarsátt um heilbrigðisþjónustuna
Reynslan síðastliðinn áratug sýnir að litlu skiptir hver fer með landstjórnina,  heilbrigðisþjónustan er skorin og holuð innan. Fjárlögin – að mestu óbreytt stefna

Staðreyndin er að það þarf hugarfarsbreytingu, þjóðarsátt, þjóðstjórn um enduruppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Þar verða allir að leggjast á eitt. Tímaglasið er runnið út. Ráðist ekki grundvallarbót á verður að hafa  sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu  um málið.

Jón Bjarnason

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir