Áætlar svepparækt í gömlu loðdýrabúi :: Árni Björn í vitali
Það hafa orðið talsverðar breytingar á veitingageiranum á Króknum undanfarið misseri þar sem m.a. hafa orðið eigendaskipti á Sauðárkróksbakaríi, starfsemi Lemon færðist úr gamla bænum og Kaffi Krókur opnaði með neistaflugi nú um helgina með nýjum eigendum. Fyrir skömmu fréttist svo af því að Hard Wok Cafe hafi verið sett á sölu.
Árni Björn Björnsson og Ragnheiður Ásta Jóhannsdóttir eru eigendur Hard Wok og skrifaði Árni á Facebook að ástæðan fyrir sölunni væri sú að hann hafi verið í veitingarekstri í 34 ár og langi nú til að söðla um og einbeita sér að Litla „ljóta“ andarunganum sínum á Mel 2.
„Við höfum verið að hugsa í þessa átt í þrjá til fjóra mánuði og rætt fram og til baka. Ég er orðin 54 ára og get alveg haldið áfram í tíu ár í viðbót en þá geri ég ekki neitt af því sem blundar í kollinum á mér, það er t.d. þetta á Mel,“ svarar Árni forvitni blaðamanns. Hann segist hafa verið eitthvað þungur í hausnum fyrir fjórum árum og sótt sálfræðitíma sem breytti ýmsu.
„Ég held að ég hafi aðallega talað og talað, líklega hitti ég hann fjórum sinnum en í síðasta tímanum sagði ég honum frá nokkrum hlutum sem væru að blunda í kollinum á mér þ.á.m. að mig langi til þess að fara í svepparækt og ylrækt, fara alveg á hinn endann á því sem ég er að gera núna. Hann tjáði sig eftir þennan tíma og sagði: „Árni, þú ljómar allur þegar talar um þetta“. Þannig að ég keypti Mel daginn eftir.“ Melur 2 er lítill reitur þar sem áður var starfrækt loðdýrabú og Árni því kominn með heilt minkabú í fangið, alls 2000 m2, en án dýra.
„Ég hafði verið með þetta í sigtinu í nokkurn tíma en fyrir þremur árum hreinsuðum við helminginn af húsinu, steyptum og smíðuðum rými til þess að rækta sveppi. En svo fór Hard Wok á þannig skrið að við höfum ekki komist í að halda áfram síðustu þrjú árin. Maður bjóst við því í Covid að maður hefði tækifæri til að taka slurk á þessu en það varð allt vitlaust að gera á þessum Covid árum á veitingastaðnum.“
Árni segir að tæki hafi verið keypt í svepparæktina, hillur, hitablásarar og rakatæki en hann hafi ekki komist í það að setja þau saman. Hann viðurkennir að veitingahúsið sé þess eðlis að hann gæti alveg ráðið einhvern til þess að sjá um rekstur veitingastaðarins og einbeitt sér sjálfur að uppbyggingu á Mel en telur það farsælla að nýr eigandi taki við sem sæi um rekstur og jafnvel frekari uppbyggingu staðarins sjálfur . „Þess vegna ákváðum við að setja þetta í hendurnar á einhverjum sem væri með spútnik í því smá saman, gæti tekið þetta jafnvel upp á næsta level, sem að ég held að sé alveg hægt þó að það sé virkilega góð velta þarna þá er alltaf „room for improvement“, eins og sagt er á ensku.
Árni á Mel
Melur 2 í fallegu októberveðri. Mynd: PF.
Litli „ljóti“ andarunginn er sem sagt hugmynd Árna að rækta sveppi og grænmeti á Mel og jafnvel má sjá hænur í framtíðardraumum vertsins.
„Grunnhugmyndin er að rækta sveppi og grænmeti og mér þykir líklegt að maður fari í hydroponic [vatnsrækt] við ræktunina þá verður maður með fiska í tank líka og hringnum lokað. Mér þykir ekki ósennilegt heldur að við verðum með hænsni upp á það að gera að búa til okkar eigið nítrat fyrir sveppa- og ylrækt. Hænsnaskítur er mjög verðmætur í svoleiðis,“ útskýrir Árni. En draumarnir hætta ekki þar því hann segist einnig hafa haft hugmyndir um þörungarækt lengi.
„Mér þykir heldur ekki ólíklegt að við gerum tilraunir með það, því hann vex mjög hratt. Það er hægt að finna þörunga með mikið verðgildi eins og Omega 3 olíu. Ég hitti gamlan körfuboltafélaga, sem núna er forstjóri Alkaline á Reykjanesi, og hann er tilbúinn til að hjálpa mér og ráðleggja hvaða þörunga við ættum að rækta,“ segir Árni en leggur áherslu á að fókusinn sé á sveppina þó verið sé að pæla í öllu sem þeim detti í hug. „Við erum meira að segja svo staðráðin í að fara þangað frameftir að við höfum fest kaup á húsi og sótt um byggingaleyfi en það á að koma í desember,“ segir hann kátur í sinninu.
Enginn sveppasérfræðingur
Svona var umhorfs í loðdýrabúinu er Árni tók við Mel.
Mynd: Sjáskot af vídeói.
Að sögn Árna vantaði, árið 2018, 300 tonn upp á það að Íslendingar næðu að framleiða upp í eftirspurn á þeim hefðbundnu matsveppum sem verslanir bjóða upp á, svokallaða „white button“ sveppi, og telur hann að það ástand sé óbreytt nú í dag. Þá gætu aðrar tegundir einnig skotið upp kollinum í moltunni en eftirspurn á ostrusveppum hefur farið vaxandi síðustu ár. „Ég talaði við kollega mína í bænum sem allir eru mjög spenntir fyrir ostrusveppnum Hann líkist kjúklingakjöti þegar hann er rifinn í sundur svo hann er t.d. góður fyrir veganfæði.
Við höldum að hann vaxi hraðar líka og sé einfaldari en sá hvíti, sem þarf hálm og skít í rotmassann sem verður til á einhverjum þremur vikum áður en sveppagróunum er sáð. En þessir þurfa bara hálminn og sveppurinn kynntur strax út í,“ útskýrir Árni en tekur fram að hann sé enginn sérfræðingur í svepparækt. „Fyrir þremur árum keypti ég mér m.a. ostrusveppi frá Belgíu, fékk þrjá væna kassa af sveppagrói og fór aðeins fram úr mér. Var ekki tilbúinn með neitt og keypti allt of mikið, þannig að ég setti þau inn á kæli á Hard Wok til að geyma.
Ég hélt ég myndi bæla gróin niður út af kuldanum og þau myndu ekki vaxa en tveimur til þremur mánuðum seinna voru farnir að vaxa sveppir út úr kassanum inni á kæli í þriggja stiga hita. Þannig að ég er ekki í nokkrum vafa um að það ætti að ganga vel að rækta sveppi og láta þá vaxa í rotmassa þegar við förum að stýra hitastigi.“
Ekki sama hver tekur við
Þá er það spurningin hvaða verðmiði skyldi vera á Hard Wok? En þegar stórt er spurt er ekki alltaf von á svari. Árni segist vera með verðhugmynd en ætlar að sjá til hvernig það fer. „Ég vil helst ræða það við fólkið sem hefur áhuga. Þetta er eins og í öðru, þeir sem kaupa vilja ekki endilega að það sé upplýst á hvað selt eða keypt er á,“ segir hann en ljóst er að um talsverða upphæð er að ræða þar sem bæði er um rekstur veitingastaðarins að ræða og allt húsnæðið en íðúð þeirra hjóna er á efri hæðinni. Hann vonast til að væntanlegir kaupendur verði vandanum vaxnir því honum sé ekki sama í hvaða hendur þetta fer.
„Það verður að vera einhver sem hefur áhuga á að halda þessu áfram í svipuðu horfi og ég verð mikið meira en til í að vera þeim innan handar í einhvern tíma. Ég hef 34 ára reynslu í þessum bransa og búinn að prófa eitt og annað, gert mistök og reynt að læra af þeim. Ég myndi ekki vilja selja einhverjum manni sem eyðileggur þetta. Þetta er dúndurgott fyrirtæki og við stillum verðinu upp þannig að viðkomandi á að geta fengið þetta til baka á tíu árum. Það er staðreynd, sérstaklega þegar hlúð er að þessu eins og við höfum gert,“ segir Árni að lokum.
Áður birst í 40. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.