50 ára afmælishátíð Miklabæjarkirkju

Miklabæjarkirkja. Mynd: Rüdiger Þór Seidenfaden
Miklabæjarkirkja. Mynd: Rüdiger Þór Seidenfaden

Í sumar eru liðin 50 ár frá vígslu Miklabæjarkirkju. Af því tilefni er efnt til hátíðar í kirkjunni sunnudaginn 11. júní kl. 14:00.

Sr. Þórsteinn Ragnarsson fyrrverandi sóknarprestur á Miklabæ, mun flytja hátíðarræðu ásamt því að Sveinn Arnar Sæmundsson frá Syðstu-Grund og fyrrverandi organisti við kirkjuna, grípur í orgelið og fer með hugleiðingu.

Jóel Agnarsson á Stóru-Ökrum I og Þórunn Rögnvaldsdóttir í Flugumýrarhvammi flytja einsöng, og sameinaður kirkjukór Miklabæjar- og Flugumýrarsókna syngur við undirleik Sveins Árnasonar frá Víðimel.

Eftir athöfnina er boðið upp á veitingar í safnaðarheimili kirkjunnar.

Séra Oddur, kirkjubruni og vígsla nýrrar kirkju                                                                                                            

Hafist var handa við að byggja núverandi Miklabæjarkirkju í júlí árið 1970. Ákveðið var að ráðast í byggingu nýrrar kirkju árið eftir að athugun var gerð árið 1966 á þáverandi kirkju á Miklabæ, sem leiddi í ljós að viðhlítandi viðgerð yrði of kostnaðarsöm. Sú kirkja var byggð árið 1894 og brann sorglega 17. febrúar árið 1973, tæplega fjórum mánuðum áður en sú nýja var vígð. Talið er að eldurinn hafi kviknað útfrá kolaofni í kirkjunni. Margir merkir gripir brunnu með henni, m.a. altaristafla frá miðri 17. öld sem séra Oddur Gíslason gaf kirkjunni árið 1775. Séra Oddur hvarf síðan með dularföllum árið 1786 og er í dag oftast nefndur í sömu andrá og Sólveig frá Miklabæ.

Í grein Magnúsar H. Gíslasonar á Frostastöðum, er birtist í Tímanum í júní árið 1973, útlistar hann hverjir komu að byggingu kirkjunnar.

„Margir lögðu að sjálfsögðu hönd að því verki, sem hér hefur verið unnið og eru ekki tök á að geta þeirra allra. Arkitekt var Jörundur Pálsson, byggingameistari Guðmundur Márusson frá Bjarnastöðum, yfirsmiður Ingólfur Þorsteinsson, Ásgarði, múrararnir Þórir Bergsteinsson og Þorsteinn Björnsson lögðu flísar í gólf og gengu frá grunni og sperrustöplum, Pétur Pálmason, verkfræðingur á Akureyri sá um vinnuteikningar, Bjarni Jónsson, rafvirki á Sauðárkróki, lagði raflagnir, Vélsmiðjan Logi á Sauðárkróki smíðaði járna- og burðarvirki í kirkju og turn, Trésmiðjan Borg á Sauðárkróki smíðaði prédikunarstól, bekki, hurðir o.fl., Sigurður Helgason, steinsmiður í Reykjavík, smíðaði altari og skírnarsá úr íslenzkum grásteini, Haukur Stefánsson og Jónas Þór Pálsson málarar á Sauðárkróki máluðu kirkjuna utan og innan, Marteinn Davíðsson, listmúrari skreytti kirkjutröppur og klukknastöpul, Aðalsteinn Steindórsson sá um skipulagningu og frágang lóðar. En aflvakinn að baki þessum framkvæmdum var svo sjálf safnaðarfólkið með sóknarnefnd, (form. Magnús Kr. Gíslason á Vöglum) og byggingarnefnd, (form. Hólmsteinn Jóhannesson á Þorleifsstöðum) í broddi fylkingar, að ógleymdum sóknarprestinum á Miklabæ, sr. Sigfús J. Árnasyni.“

Þess skal getið að í byggingarnefndinni voru, auk Hólmsteins Jóhannessonar á Þorleifsstöðum, Jóhann Gíslason, Sólheimagerði, Sæmundur Sigurbjörnsson, Syðstu-Grund og Sigurður Jóhannsson frá Úlfsstöðum. Séra Sigfús sem þá var prestur á Miklabæ er faðir grínistans Péturs Jóhanns og móðir Péturs, Jóhanna S. Sigurðardóttir, var organisti við kirkjuna.

Hin nýja Miklabæjarkirkja var vígð við hátíðlega athöfn sunnudaginn 3. júní af Sigurbirni Einarssyni, þáverandi biskup yfir Íslandi og Séra Sigfús þjónaði fyrir altari. Við upphaf athafnarinnar var gegnið í skrúðgöngu til kirkju og báru byggingarnefndar- og sóknarnefndarmenn helga muni kirkjunnar. Líkt og í ár annaðist kirkjukór Miklabæjar- og Flugumýrarsókna sönginn, en þá undir stjórn áðurnefndrar Jóhönnu ásamt því að nokkrir félagsmenn úr Karlakórnum Heimi tóku lagið. Að vígslu lokinni var blásið til veislu í Héðinsminni og sáu konur úr söfnuðinum fyrir veitingum.

Myndina af gömlu kirkjunni brenna tók Stefán Pedersen.

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir