400 krakkar á Smábæjarleikunum á Blönduósi um helgina

Smábæjarleikarnir á Blönduósi hefjast í dag og standa fram á sunnudag. Á mótið eru skráðir um 400 krakkar í rúmlega 50 liðum úr 12 félögum, alls staðar af landinu.

Þátttakan er aðallega bundin við smábæi en einnig hafa C, D og jafvel E lið stærri félaga fengið að taka þátt í mótinu, Haukar komu lengi vel á mótið og svo hefur ÍA einnig komið. Í eitt skiptið komu meira að segja tvö lið frá Grænlandi á mótið.

Undirbúningur fyrir mótið hófst í febrúar, ákveðið var að seinka mótinu í ár en Smábæjaleikarnir hafa alltaf verið haldnir þriðju helgina í júní, þetta var aðallega gert vegna óvissu með takmarkanir vegna Covid-19 og talið við öruggara að seinka mótinu ekki þyrfti að aflýsa því en það var einmitt það sem þurfti að gera í fyrra.

“Núna í ár eru þetta eingöngu minni bæir en sú skemmtilega nýjung er núna að við erum með eitt "heimatilbúið" lið ef svo má að orði komast, en það eru 8. bekkjarfélagar úr Ártúnsskóla sem skelltu í lið og skráðu sig á mótið, aðeins einn þeirra er að æfa fótbolta en allir áhugasamir, þetta er concept sem við gætum mögulega hugsað okkur að vinna með við markaðssetningu mótsins í framtíðinni,” segir undirbúningsnefnd mótsins, en Feykir sendi henni nokkrar spurningar.

Á laugardagskvöldinu verður kvöldvaka í íþróttahúsinu þar sem þeir félagar Jógvan og Friðrik Ómar sjá um að skemmta fólkinu og eru allir bæjarbúar velkomnir á hana. Öll liðin fá síðan frítt í sund á mótinu.

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir