300 m. kr. í jólagjafir!
Það styttist til jóla. Áður en við vitum af verðum við farin að gera jólaísinn og pakka inn jólagjöfum. Kannski eru margir hverjir þegar byrjaðir. Það er hins vegar afar misjafnt hvenær fólk hefst handa við jólagjafainnkaupin. Einhverjir byrja snemma árs en svo eru aðrir sem bíða þar til á Þorláksmessu með að kaupa gjafirnar og allt þar á milli. Það er líka afar misjafnt hversu miklu við eyðum í jólagjafir.
Rannsóknarsetur verslunarinnar gaf nýverið út spá um jólaverslun í ár. Skv. henni eru horfur í jólaverslun góðar. Kemur þar fram að hver Íslendingur verji að jafnaði tæplega 60 þúsundum króna til jólagjafakaupa.
Það er athyglisvert að leika sér með þessa upphæð í samhengi við átak SSNV sem miðar að því að hvetja íbúa á Norðurlandi vestra til að versla heima fyrir jólin. Skv. vef Hagstofunnar voru 1. janúar 2021 skráðir 7398 íbúar á Norðurlandi vestra. Ekki er hægt að ganga út frá því að þeir allir versli gjafir fyrir 60 þúsund fyrir jólin svo við drögum frá þá sem eru yngri en 25 ára. Eftir standa 5024 íbúar.
Ef við miðum við að þessir 5024 eyði 60 þúsund kalli í jólagjafir má gera ráð fyrir að samtals versli íbúar Norðurlands vestra jólagjafir fyrir ríflega 300.000.000 kr.
Það eru þrjúhundruð milljónir!
Þetta er ansi há upphæð og líklega nokkuð hærri en margir gera sér í hugarlund. Vert er að taka fram að spá Rannsóknarseturs verslunar og þjónustu miðar við eyðslu á hvert mannsbarn í landinu en hér er miðað við einstaklinga yfir 25 ára aldri í landshlutanum. Hér er því varlega áætlað!
Verslun á Norðurlandi vestra myndi sannarlega muna um þessi viðskipti, ættu þau sér öll stað á svæðinu. Því miður er því ekki að heilsa. Fjölmargir bregða sér í verslunarferðir til Reykjavíkur, einhverjir jafnvel erlendis, og ljúka jólagjafainnkaupum þar. Enn aðrir panta á netinu. Einhverjir eru meðvitaðir um mikilvægi þess að versla heima og hafa þá stefnu að versla eingöngu í heimabyggð. Enn aðrir gera örlítið af þessu öllu.
Mögulega má spara einhverjar krónur með því að versla annars staðar en í heimabyggð. Sá sparnaður verður hins vegar þegar til langs tíma er litið mögulega dýru verði keyptur. Því það er jú þannig að til að njóta þjónustu, verðum við að nýta hana. Til að hafa aðgang að verslunum sem selja gjafavöru, verðum við að versla gjafavöru á svæðinu. Ef við verslum öll utan svæðis er hætt við að bæði verði augljós leki á miklu fjármagni út af svæðinu sem og þegar við lítum til lengri tíma muni verslunum fækka verulega.
Til að njóta þjónustu verðum við að nýta hana
Styðjum við vöxt og viðgang Norðurlands vestra, sérstaklega yfir hátíðarnar þegar óvenju mikið er verslað, og verslum í heimabyggð. Hér er allt til alls.
Verum snjöll.
Verslum heima!
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.