23 í einangrun á Norðurlandi vestra vegna Covid
Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra sendi í hádeginu frá sér tilkynningu vegna Covid-bylgjunnar sem nú ríður yfir landið en smit hafa aldrei verið fleiri en nú um jólin. Brýnt er fyrir fólki að halda vöku sinni og sinna persónulegum sóttvörnum og er fólk hvatt til að halda lágstemmda hátíð nú um áramótin. Í smittöflu sem fylgir tilkynningunni kemur fram að 23 séu smitaðir á Norðurlandi vestra og 39 í sóttkví.
Flest eru smitin á svæðinu á Sauðárkróki þar sem ellefu manns eru í einangrun og tíu í sóttkví. Tíu eru í sóttkví í Húnaþingi vestra og fjórir í einangrun. Á landsvísu eru nú ríflega 5.500 manns í einangrun og hátt í átta þúsund manns í sóttkví. Þá er 21 á sjúkrahúsi og sex á gjörgæslu.
Í tilkynningunni frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra segir: „Aðgerðastjórn vill sérstaklega minna á handþvott, sprittun, fjöldatakmarkanir og nálgunarregluna. Forðumst hópamyndun! Aðgerðastjórn vill einnig brýna fyrir fólki með einkenni að halda sig heima, hafa samband við heilsugæslu, og halda sig til hlés þar til fullvíst sé að ekki sé um kórónuveirusmit að ræða. Sama á við hafi verið um samskipti við fólk með einkenni að ræða.
„Algengustu einkennin eru hálssærindi, vöðvaverkir, hiti, hósti, andleysi og slappleiki. Sjaldgæfari einkenni eru uppköst, niðurgangur og skyndilegt bragð- og lyktarleysi. "
Aðgerðastjórn vill minna á fyrri tilmæli til íbúa að halda ferðalögum á milli landshluta í lágmarki og forðast ferðalög til höfuðborgarsvæðisins sem og til annarra svæða sem talin eru útsett fyrir smitum eins og kostur er. Mælst er til að öllum ferðum sem hægt sé að fresta, sé frestað á meðan núverandi ástand varir.
Aðgerðastjórn vill minna fyrirtæki og stofnanir á svæðinu á áætlanir um órofinn rekstur starfseininga. Í því felst að fyrirtæki og stofnanir geri áætlun um hvernig bregðast eigi við ef upp kemur smit þannig að hægt verði að halda úti lágmarks starfsemi og þjónustu við íbúa svæðisins. Aðgerðastjórn vill beina tilmælum til þeirra fyrirtækja og stofnana sem ekki hafa komið sér upp slíkri áætlun að gera það hið fyrsta.
Sýnum skynsemi næstu daga og vikur, tökumst á við verkefnið með samstöðu að vopni og bros á vör því aðeins þannig náum við árangri.“
Klikkt er út með því að minna fólk á að fara varlega, muna sóttvarnirnar og að öll erum við almannavarnir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.