17 sigurleikir Tindastóls í röð – geri aðrir betur!
Síðasta umferðin í 3. deildinni í knattspyrnu fór fram í dag og að sjálfsögðu kláruðu Tindastólsmenn mótið með stæl. Leikið var gegn liði Kára í Akraneshöllinni á Akranesi og sterkur 1-2 sigur þýddi að Stólarnir hafa unnið 17 leiki í röð í deildinni – engin jafntefli – og aðeins fyrsti leikur sumarsins sem tapaðist. Glæsilegur árangur!
Stólarnir náðu forystunni í leiknum í dag á 41. mínútu þegar Ragnar Þór Gunnarsson skoraði úr vítaspyrnu. Staðan var 0-1 í hálfleik. Skagapiltar jöfnuðu metin á 58. mínútu og var það aðeins níunda markið sem Tindastóll fær á sig í sumar. Það var síðan Stephen Walmsley sem gerði sigurmark leiksins á 70. mínútu og Tindastólsmenn verðugir 3. deildar meistarar með 51 stig eftir 18 leiki.
Tindastóll eiga toppsæti 3. deildar sannarlega skilið eftir frábæra leiktíð. Ekkert lið skoraði fleiri mörk en Stólarnir gerðu 45 mörk í þessum 18 leikjum. Þá er auðvitað með ólíkindum að strákarnir hafi aðeins fengið á sig 9 mörk í deildinni.
Blaðamaður Feykis, Kristín Einarsdóttir, fékk að fljóta með Stólunum heim frá Akranesi og það ku vera góð stemning í rútunni; We Are the Champions og The Winner Takes It All búin að rúlla í græjunum. Þá ku leikmönnum og stuðningsmönnum hafa verið hleypt í sjoppu og nú er stefnan tekin heim á uppskeruhátíð. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr ferðinni.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.