112 dagurinn á morgun, 11. febrúar

Á morgun, þriðjudaginn 11. febrúar, er að venju 112 dagurinn og verður hann haldinn hátíðlegur um land allt. Dagsetningin 11. 2. á að minna okkur á neyðarnúmer allra landsmanna, 112 og er mikilvægt að minna á þetta númer af því þetta er eina númerið sem landsmenn þurfa að þekkja í neyð.

Börn geta verið stórkostlegar fyrirmyndir þegar kemur að öryggi og forvörnum og verður því þema 112 dagsins í ár, 2025, Börn og öryggi.

Börn geta verið fyrirmyndir á marga vegu í daglegu lífi, eins og þegar þau ganga með endurskinsmerki eða eru með hjálm þegar þau hjóla. Þegar þau spenna beltin í bíl og auðvitað þegar þau minna fullorðna á að vera ekki í símanum við akstur. Börn eru líka aðstoðarmenn slökkviliðs í leik- og grunnskóla og eru frábærir innhringjendur þegar þau hringja í Neyðarlínuna.

Í Húnaþingi vestra ætla viðbragðsaðilar að efna til hópaksturs um Hvammstanga. Allir fá að fara með í bílana á meðan pláss leyfir og verður lagt af stað í hópaksturinn frá Húnabúð – slökkvistöð kl. 16.30. Hópaksturinn endar svo aftur á sama stað og þar verður hægt að fá að skoða tækin.  Í tilkynningunni segir; endilega komið með eða kíkið við og samfagnið deginum með viðbragðsaðilum í Húnaþingi vestra.

Á Sauðárkróki ætla viðbragðsaðilar á svæðinu að hittast við Árskóla kl. 9:45 og sýna yngsta stigi og miðstigi skólans bílana.

Hópakstur frá Björgunarfélaginu Blöndu í Húnabyggð verður kl. 17 um þéttbýli Húnabyggðar, öllum velkomið að koma í heimsókn milli kl. 17.30 og 18.30.

Á Skagaströnd verður hópakstur frá Björgunarsveitinni Strönd kl. 9:30 sem ekur um þéttbýlið með sírenur og ljós. Frá kl. 9:40 verður svo hægt að skoða öll tækin við íþróttahúsið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir