0 - 7 tap á Akureyri
Leikmenn Tindastóls í knattspyrnu öttu kappi við spræka Þórsara í Gosdrykkjarmóti Knattspyrnudómarafélags norðurlands á laugardag. Er skemmst frá því að segja að leikurinn tapaðist 0 - 7.
Eftirfarandi frásögn frá leiknum er fengin af heimasíðu Tindastóls.
Leikmenn mættu kl.16;30 við íþróttahúsið á Sauðárkróki og röðuðu sér í bíla svo allir kæmust með. Þetta kostaði nokkurn höfuðverk en gekk þó upp að lokum. Veðrið á Króknum var gott, logn en nokkuð frost. Janúarmánuður hefur líka veðurfarslega verið einstaklega góður í Skagafirði, jafnvel elstu menn muna vart aðra eins tíð. Hver dagurinn öðrum betri og hækkandi sól í suðri. Færðin var líka afskaplega góð alla leiðina norður þó svo einstaka hálkublettir væru austan Öxnadalsheiðinnar.
Leikmenn keyrðu eftir aðstæðum og fóru eftir umferðarreglunum í hvívetna, enda var hópurinn í lögreglufylgd alla leiðina.
Leikmenn og liðsstjórn mætti í Bogann um 45 mínútum fyrir leik og var vísað til búningsklefa númer fjögur af ágætum starfsmanni sem þar tekur brosandi á móti okkur í hvert skipti sem við látum sjá okkur þarna. Skúli tók með afmælisbúning Tindastóls, gulan og svartan sem menn klæddust. Því næst töltu þeir inn í Bogann og hituðu vel upp og teygðu.
Dómari leiksins sem var bifvélavirki flautaði til leiks og dæmdi allan leikinn ljómandi vel. Honum til aðstoðar á línunni var kokkur.
Byrjunarlið Tindastóls var eftirfarandi: Stefán Vagn, Hallgrímur, Bjarki, Simmi, Árni Ödda, Árni Einar, Ingvi Hrannar, Jói, Snorri, Gummi og Fannar Freyr. Varamenn voru: Gísli Eyland, Böddi, Gísli Rúnar, Siggi lögga, Siggi Heiðar og Atli Ödda.
Á 45. mín. fóru útaf: Stefán Vagn, Snorri og Hallgrímur. Inn komu: Gísli Eyland, Siggi og Siggi.
Á 64. mín. fór Jói útaf og í hans stað kom Atli nokkur Arnarson, 15 ára gamall drengur úr Hlíðarhverfinu.
Á 70. mín. fór Sigmundur útaf og Gísli Rúnar kom inná.
Á 76. mín. fór svo Bjarki útaf og Böddi tók hans stöðu.
Leikurinn var rúmlega 90 mínútur.
Að leik loknum gengu leikmenn til búningsklefa, fóru í sturtu, fengu sér snarl og óku svo heim á leið reynslunni ríkari eftir 0-7 tap.
Leikmenn lögðust til hvílu þegar heim var komið og voru fljótir að sofna.
Næsti leikur þeirra verður á móti Magna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.