Dekurdýr sem yljar hjartanu

Lee Ann og Mía sæta:) MYND:AÐSEND
Lee Ann og Mía sæta:) MYND:AÐSEND

Það eru fáir sem ekki eiga orðið gæludýr í dag en gæludýraeign hefur án efa margvísleg áhrif á okkur bæði andlega og líkamlega, sérstaklega á þessum furðulegu tímum sem við lifum í í dag. Hundar eru með vinsælustu gæludýrunum og þurfa þeir flest allir daglega hreyfingu en það á ekki við um hundinn hennar Lee Ann Maginnis, sem neitar að fara út ef það er blautt og leiðinlegt veður. Lee Ann er dóttir Jóhönnu G. Jónasdóttur, kennara í Blönduskóla, og Jóns Aðalsteins Sæbjörnssonar (Alla), eftirlitsmanns hjá Vinnueftirlitinu. Hún býr á Blönduósi ásamt syni sínum og krúttlega Pug hundinum Míu sem er mikið dekurdýr.

Hún Mía, eða Míumús eða mömmumús eins og Lee Ann kallar hana stundum, er tólf ára, lítil og dálítið kubbsleg, sterklega byggð og vöðvastælt með snúðslaga skott. Gerist ekki mikið krúttlegra, enda er íslenska þýðingin á tegundinni Kubbur.

Hvernig eignaðist þú Míu? Árið 2010 þegar ég stundaði nám við Háskólann á Bifröst þá mætti ég Míu og eiganda hennar í göngutúr. Það var bara eitthvað við Míu sem algjörlega heillaði mig. Út frá því fór ég að fara með hana reglulega í göngutúra og passa hana þegar eigandinn var í burtu. Um sumarið fór ég heim á Blönduós og ég saknaði hennar svo mikið að ég sótti hana til Reykjavíkur og fékk hana lánaða. Það endaði með því að hún var hjá mér í sex vikur. Þegar hún fór heim var ég algjörlega niðurbrotin því ég saknaði hennar svo mikið. Ég var svo heppin með það að hún saknaði mín líka mjög mikið og viku eftir að hún fór aftur til eigandans var hún flutt til frambúðar til mín.

Hvað er skemmtilegast við Míu? Hún er mjög mikil félagsvera og veitir manni alveg rosalega mikinn félagsskap. Hún er líka afskaplega uppáþrengjandi þegar maður er eitthvað lítill í sér og það er eins og hún finni það á sér. Hún gefur manni alveg afskaplega mikið og er mjög mikið dekurdýr. Svo skemmir ekki fyrir hvað hún er sæt. Ég þarf ekki annað en að horfa á hana og þá fæ ég smá hlýju í hjartað.

Hvað er erfiðast? Mér finnst mjög erfitt þegar hún er veik. Hún er orðin gömul og því fylgja reglulegar heimsóknir til dýralæknis. Hún þurfti að fara í mjög stóra aðgerð 2019 og það var ekkert vitað hvort hún myndi lifa það af. Sem betur fer gekk
aðgerðin mjög vel og hún hefur verið hin hressasta síðan.Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af gæludýrinu? Hún vill helst ekki fara út þegar það er kalt, rigning, rok eða snjór og lætur ekkert hvað sem er yfir sig ganga. Alli fór með hana í göngutúr eitt sinn og það var frekar kalt úti. Hann var varla kominn út úr innkeyrslunni þegar Mía lagðist í jörðina og spilaði sig mjög auma. Alli hélt að hann hefði algjörlega gengið frá henni og losaði ólina. Mía áttaði sig fljótt á því að hún væri laus úr prísundinni og hljóp
eins hratt og hún gat aftur heim. Lengra ætlaði hún sér ekki að fara í það skiptið.

Feykir þakkar Lee Ann kærlega fyrir að taka þátt í gæludýraþættinum:)

Sigga sigga sigga

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir