Þetta eru alltaf sömu vonbrigðin
Elliði Guðjónsson grunnskólakennari setti sig í samband við Dreifarann í gær og er óhætt að fullyrða að hljóðið hafi verið þungt í honum. „Já ég skal nú segja þér það að maður er orðinn langþreyttur á þessu ástandi. Þetta dregur mann bara niður í svartnættið og af og til, af og til sjáðu, hefur verið ljós í myrkrinu en svo hverfur það bara eins og dögg fyrir sólu,“ segir Elliði.
Hann heldur áfram. „Nánast hvern einasta vetur gerir maður sér vonir um betri tíð en þetta eru alltaf sömu vonbrigðin. Endalaust þjark, endalaus rembingur og þetta skilar aldrei neinu.“
Já, þið eruð ekki vongóðir? „Nei svo sannarlega ekki. Og svo eru menn bara að hætta. Þetta er bara hræðilegt. Þetta eru svo mikil vonbrigði sjáðu.“
Eru menn að hugsa um að segja upp? „Segja upp? Ég veit það nú ekki en menn eldast náttúrulega fljótt í þessu djobbi þannig að ferillinn er ekki langur. Menn bara hætta og maður er bara svo sár því þetta skilur svo lítið eftir sig.“
En heldurðu að það takist ekki að semja á endanum? „Semja? Nei, ég held ekki. Ekki úr þessu. Lappirnar eru bara búnar að gefa sig. Hann er ekkert að fara snúa til baka til okkar.“
Hver er það segirðu? „Nú Stevie maður, fylgistu ekkert með? Sjálfur kóngurinn, Steven Gerrard, er búinn að leggja skóna á hilluna!“
Nú, ég hélt að við værum að ræða kjaramál kennara? „Neeei, nei blessaður vertu. Það er nú ekkert sem ég get gert varðandi þau mál. Þau verða bara að hafa sinn gang. En hjá okkur Púllurum er þetta búin að vera 26 ára þrautaganga og Gerrard varð aldrei enskur meistari. Það er bara ekki sanngjarnt. En ég held að við tökum þetta í vetur...“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.