Sólbjartur og skýin
Sólbjartur Jakobsson hefur stundað sauðfjárbúskap í yfir 50 ár. Nýlega lét hann af störfum og festi kaup á íbúð í fjölbýlishúsi á Sauðárkróki. Þar ætlar hann að una sér vel á efri árunum og kveðst ætla tileinka sér tölvutæknina eins og kostur er. Sólbjartur hafði samband við dreifarann og kvaðst hafa verulegar áhyggjur af þróun mála í tölvutækninni.
Jæja Sólbjartur, hvað er að frétta? -Það er nú mest lítið... og þó. Ég keypti mér nú tölvugarm í fyrsta sinn fyrir tveimur vikum síðan. Maður er nú bara svona rétt að læra á þetta en ég hef nú lítið annað að gera með tímann. Kominn með ágætis vald á músinni, þetta eru náttúrulega djöfulsins fínhreyfingar allt og ekki svo auðvelt að hitta á réttan hnapp. En aðal byltingin fyrir mér er þessi veraldarvefur. Maður þurfti alltaf að bíða eftir Morgunblaðinu hér áður fyrr en nú fær maður þetta allt barasta beint í æð. Svo ég tali nú ekki um allar dömurnar hérna... hérna á Internetinu sjáðu til.
Það var samt eitthvað sem þú varst óánægður með? -Jú, þannig er mál með vexti að þegar ég verslaði tölvugarminn þá var prangað inn á mig einhverri andskotans skýjaþjónustu. Sölumaðurinn tjáði mér að innifalið væri eitthvað sem hann kallaði 2 terrabæta gagnamagn og svo sagði hann að gögnin sem ég vildi geyma væru örugglega vistuð í skýjunum! Meiri vitleysan að láta pranga þessu inná sig, maður er nú svo vitlaus í þessu öllu saman!
En Sólbjartur, er þessi skýjaþjónusta ekki bara það sem koma skal? -Vertu nú rólegur vinurinn, þið unga kynslóðin haldið alltaf að allt nýtt sé af hinu góða og að við gamlingjarnir séum bara alveg úti á túni. En málið er ekki svona einfalt þegar betur er að gáð, ég hef nefnilega hugsað þetta í þaula!
Nú hvað meinarðu, vantar þig ekki bara að læra betur á þetta? -Bíddu rólegur. Ég hef nú fylgst með veðrinu í 55 ár vinur minn og það segir mér enginn hvernig þessi ský haga sér frá degi til dags. Það kemur nú fyrir að það er heiðskírt, hvar eru gögnin mín þá, hafa þau kannski glatast? Svo var mér tjáð að ég megi ekki sækja meira en 20GB til útlanda, erlent niðurhal kallast það hérna í samningnum. Það verður nú fljótt að klárast þegar helvítis norðanáttin hefur þeytt skýjunum eitthvað út í buskann, til Þýskalands, já eða þarna til ESB-landanna eða guð veit hvert. Og hvað gerist með gögnin þegar það kemur hellirigning, nú eða þrumuveður? Nei, þetta er bara ekki að ganga upp.
Nú held ég að þú sért eitthvað að misskilja Sólbjartur. -Ég er ekkert að misskilja neitt. Eitt get ég sagt þér vinur minn, ég ætla mér ekki að fara liggja yfir veðurfréttum allan liðlangan daginn til þess eins að athuga hvort hægt verði að vista eða sækja gögnin mín á komandi dögum. Þetta er bara rugl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.