Skúli stöðvaður grunaður um smygl
Skúli Oddsson skrifstofumaður var á leið til útlanda á dögunum þegar hann lenti í neyðarlegu atviki sem fékk nokkuð á hann. Skúli hefur alla sína hunds- og kattartíð verið til mikillar fyrirmyndar bæði í starfi og einkalífi, hefur verið giftur sömu konunni í 37 ár og á með henni tvær dætur. -Þetta eru yndislegar dætur sem ég á, segir Skúli. -Hún Friðbjört mín er í tannlæknanámi í Svíþjóð og Gullveig hefur nýlokið námi í lögfræði.
Það er gott að heyra Skúli, en hvað segirðu, þú ætlaðir til útlanda? -Já, við ætluðum saman hjónin til Madeira og höfðum ákveðið að taka hana tengdamóður mína með, semsagt móðir hennar Arnfríðar minnar. Hún varð nefnilega 100 ára í fyrrahaust en var hálf lasburða þá svo við ákváðum að bíða og sjá hvort hún yrði ekki hressari með vorinu.
100 ára. Er hún ekki svolítið gömul til að ferðast? -Nei, hún er svo ern hún tengdamóðir mín, alveg eins og nýsleginn túskildingur.
Og hvað segirðu, hvað gerist svo? -Já við hérna pöntum ferðina og allt í lagi með það en það versnaði nú í því þegar við ætluðum í gegnum öryggishliðið í Leifsstöð. Þar vorum við hreinlega stöðvuð og ég tekinn afsíðis. Það kemur einhver yfirmaður og hann segir við mig: -Þú gerir þér grein fyrir hvað tengdamóðir þín er gömul. -Nú jájá, ég veit allt um það, segi ég. -Hún er meira en 100 ára, segir hann. -Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, segi ég. -Þú ert að brjóta lög vinur minn, segir hann þá...
Brjóta lög? -Já, hann sagði það og ég spyr hvað hann sé eiginlega að meina. -Þú þekkir kannski ekki lögin varðandi fornminjar, segir hann þá. -Nei, segi ég og hann segir þá: -Það er stranglega bannað að flytja brott með sér fornminjar sem eru 100 ára eða eldri og þú vinur minn ert einmitt að brjóta þessi lög á þessari stundu. Þetta getur varðað allt að sex ára fangelsisvist, allt eftir alvarleika brotsins, segir maðurinn.
Ég er svo aldeilis! Og hvernig endaði þetta? -Nú ég var auðvitað farinn að svitna og konan mín og tengdamóðir orðnar ansi órólegar. Og ég spyr hann: Hvað ætlarðu að gera, ætlarðu að handtaka mig maður, við erum bara á leiðinni til Madeira og komum aftur eftir tvær vikur? Ég lofa að koma með tengdamóðir mína aftur til landsins.- Ég var alveg í öngum mínum. Hann horfir alvarlegur á mig og segir: -Nei væni minn, hún fer ekkert til Madeira í dag, ég verð að koma henni í gæslu á Þjóðminjasafnið... -Á Þjóðminjasafnið!!!? hrópa ég upp yfir mig og þá springur helv... maðurinn úr hlátri. Þá var hann búinn að bíða árum saman eftir tækifærinu til að gera þennan hrekk.
Ég er svo aldeilis. Og hefur þetta einhver eftirmál? -Æi nei. Mér er sagt að samtalið hafi verið tekið upp og sýnt á árshátíð þeirra þarna í Keflavík og vakið mikla lukku. Ég held að ég geri nú ekkert mál úr þessu, Gullveig mín var alveg öskuill og vildi kæra manninn, en ferðalagið tókst svo vel og maður hlær bara að þessu í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.