Reynir tók bara Möllerinn á þetta
Reynir Ármann Sigurðsson leikfimikennari (66), sem margir þekkja undir nafninu Reynir Á. Sig., komst í hann krappann nú í sumar. Hann og kona hans höfðu grillað sér svínalundir í sumarbústaðnum og höfðu með þeim sætar kartöflur og hvítlaukssósu. Skyndilega stóð einn bitinn í konunni hans og þá voru góð ráð dýr. Dreifarinn fékk að heyra alla sólarsöguna.
Hvað gerðist eiginlega Reynir? -Hún tuggði ekki bitann nógu vel, ég er alltaf að segja henni að borða hægar – borðaðu hægar Bogga mín, segi ég alltaf – en hún er bara svo skelfing gráðug blessunin.
Og hvað svo? -Nú svo eins og ég segi erum við að borða þarna í bústaðnum og þá stendur biti allt í einu í henni, hún grípur um hálsinn og er bara alveg að kafna blessunin og það kemur eitthvað fát á mig. – Meiri vitleysan, maður á ekki að segja frá svona löguðu. Auðvitað veit ég hvað maður á að gera en ég bara ruglaðist svona svakalega í ríminu. –
Nú? -Já, ég ruglaðist á nöfnum, panikaði alveg gjörsamlega. Í staðinn fyrir að taka Heimlick-takið þá fer ég að gera Möllers-æfingarnar. Eðlilegur misskilningur, bæði nöfnin þýsk held ég. En ég stend bara fyrir framan hana Boggu eins og hálfviti, teygi mig og beygi eftir kúnstarinnar reglum og ég sé bara hvernig augun standa á stilkum – hún var svo hissa, já og reið greyið. Og ég held bara áfram mínum æfingum...
Tókstu Möllers-æfingarnar?! -Jájá, alveg á fullu og hún spratt svo á fætur, farin að blána upp, og benti á mig, eins og hún ætlaði að skamma mig, en svo bara þegar hún reynir að grípa í mig þá dettur hún í gólfið og þar, sem betur fer, spýttist bitinn upp úr henni. Og hún var nú barasta fljót að koma til. Við hlógum að þessu þegar hún hafði jafnað sig og kláruðum að borða í rólegheitum.
Þannig að allt er gott sem endar vel? -Það er öruggt. Ég vona að sem flestir kynni sér Heimlich-takið og passi sig á að rugla því ekki saman við Möllers-æfingarnar. En ég er nú ekki frá því að Möllers-æfingarnar hafi bjargað henni Boggu minni, hún varð svo reið þegar hún sá mig gera þær að hún féll í gólfið í æsingnum.
Hafiði eitthvað lært á þessari uppákomu? -Jaaá, hún reynir að borða hægar og tyggja matinn sinn betur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.