Óþolandi ójafnrétti kynjanna
Guðbjartur Guðjón Guðmundsson hafði samband við Dreifarann og lýsti yfir áhyggjum sínum af jafnréttismálum kynjanna. Þar sem jafnréttisbaráttan er fréttastofu Dreifarans hjartans mál og mál málanna í dag var hringt í Guðbjart og fengin nánari útskýring á máli hans.
Hvað segirðu Guðbjartur, við hvað ertu ósáttur? -Nú, ég er búinn að vinna heima síðast liðin 5 ár, hugsa um heimilið, elda mat, þvo þvott og ala upp börnin og svona. Við hjónin viljum hafa þetta svona þar sem konan mín er í svo góðri stöðu, hún þénar á við tvo til þrjá í hverjum mánuði.
Þú getur varla verið ósáttur við hag þinn þar sem þið hjónin hafið ákveðið þetta í sameiningu? -Ha? Ekki ósáttur?! Engan derring væni minn, ég er mjöööög ósáttur, málið er að ég kemst aldrei í frí... ég er farinn að þrá gott frí.
En hvernig kemur þetta jafnréttisbaráttu kynjanna við Guðbjartur? -Já ég skal nú útskýra það fyrir þér. Það er alveg kristaltært. Sjáðu nú til vinur, um daginn sá ég auglýsingu þar sem auglýst var eftir þátttöku kvenna í orlofsferð húsmæðra... auðvitað er það allt gott og blessað, en nú spyr ég: Hvar er orlofsferð húsfeðra? Svaraðu því! Hvers eigum við húsferður að gjalda?
Þú segir nokkuð Guðbjartur, en hvaða vesen er þetta, getur þú ekki bara farið í frí? -Neeeeeiii... ekkert svona vinur minn. Í lögum frá Alþingi segir orðrétt, ég er með þetta hérna fyrir framan mig: „Sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, á rétt á að sækja um orlof.“ Sko! Þetta er kristaltært. Ég er ekki kona, ég er karl sem hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu. Hvar get ég sótt um orlof? Ertu ekki að sjá kynjamisréttið í þessu vinur minn?
Þetta er alveg greinilegt, ertu með einhver fleiri dæmi? -Já, það vantar sko ekki dæmin. Til dæmis hef ég mjög gaman af því að hreyfa mig. Einu sinni á ári gefst öllum konum á Íslandi kostur á að hreyfa sig í svokölluðu Kvennahlaupi. Þar fá þær bol og medalíu – hversu frábært er það? Ég hef aldrei fengið verðlaunapening fyrir neitt. Og þá spyr maður sig: Hvar er Karlahlaupið? Ég spyr aftur: Ertu ekki að sjá kynjamisréttið vinur minn?
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum? -Að lokum? Ég er rétt að byrja vinur. En jú, blessuð kvenfélögin, fyrsta markmið þeirra er að efla húsmæðrafræðslu og heimilisiðnað í landinu með hvatningu, fjárstyrk og eftirliti. Fæ ég þá enga fræðslu? Hvar eru karlfélög þessa lands? Hvar er Karlaathvarfið? Ertu ekki að sjá kynjamisréttið vinur minn og...
Já takk, jújú, þakka þér Guðbjartur fyrir þitt áhugaverða innlegg í jafnréttisumræð... -...Bíddu, bíddu, bíddu, ég er ekki búinn, ég er með annað dæmi þar sem við karlarnir stöndum höllum fæti og það er tengt blessuðum börnunum og hlustaðu nú: Hvenær hefur konu verið verið kenndur krakki sem hún á ekk!? Ha? Þetta er ósvinna, það er það bara og ég hef skömm á þessu óréttlæti. Ég vil mitt frí og mitt mannorð og það strax!!!
Takk Guðbjartur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.