Hjördís Alfa sparar í jólagjöfunum
Hjördísi Ölfu Eyjólfsdóttur þykir gaman að gleðja ættingja og vini um jólin og er af þeim sökum dugleg að gefa jólagjafir. Hún reyndist sigurvegari í jólaleik Dreifarans, Sparaðu í jólagjöfum, sem fram fór í nóvember.
-Ég vil svo gjarnan gleðja allt þetta góða fólk í kringum mig en ef maður ætlar að komast á alla þessa jólatónleika og skjótast í verslunarferðir hér heima og svo ég tali nú ekki um erlendis og svona, þá hefur maður nú elskan mín ekki oft mikið á milli handanna til að eyða í gjafir til annarra, segir Hjördís Alfa.
Nú vannst þú leikinn Sparaðu í jólagjöfum Hjördís, hvaða uppástungur varstu með? -Þær voru nú svo margar og sumar kannski ekkert frumlegar. Ég veit nú um marga sem geyma gömlu tómu konfektkassana og fara svo á konfektkynningar í verslunum fyrir jólin og safna í 6-7 kassa. Það getur auðvitað tekið svolítinn tíma en ef ég fer með börnin og barnabörnin með mér þá get ég nú náð í eins og í tvo kassa á einum eftirmiðdegi. Svo hef ég reyndar farið svolítið í tapað/fundið og það hefur nú alltaf borgað sig. Þar er svoooo margt lekkert og stundum lítið notað.
Já frábært, ertu með fleiri sparnaðarráð? -Ég læt pakka öllu inn fyrir mig í verslunum og ég endurnýti jólakortin eins og hægt er, en þá er líka alveg nauðsynlegt að skrifa inn í þau með blýanti og helst laust.
Ekki biðurðu fólk um að senda þér jólakortin þannig? -Nei nei, ég nálgast kortin sem ég sendi sjálf.
Nú er ég ekki að skilja þig Hjördís. -Jú sjáðu, á milli jóla og nýárs þá reyni ég að heimsækja fólkið sem ég sendi kort til, fæ kaffi og konfekt og kannski pínu koníak og svo eins og maður gerir gjarnan þá kíkir maður aðeins á jólakortin og þá er þetta bara spurning um að sæta lagi og stinga kortinu sem ég sendi ofan í veskið þegar enginn sér til.
Er þetta nú ekki ansi langt gengið? -Nei alls ekki, ég fæ líka lánaðar DVD myndir hjá honum bróður mínum og gef þær og segi honum svo að ég hafi tínt þeim eða bara að ég hafi ekki fengið þær lánaðar. Hann á svo mikið af svona dóti sem hann gerir ekkert með.
En Hjördís, þetta heitir að stela. -Æi láttu ekki svona, hann er búinn að sjá allar þessar myndir maðurinn og mér þykir bara svo gaman að geta verið svona rausnarleg yfir jólin. Það er talað um það.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.