Gósentíð hjá Hjördísi Ölfu og fjölskyldu
Hjördís Alfa Eyjólfsdóttir hefur nokkrum sinnum haft sig í frammi hér í Dreifaranum en sparnaðarráð hennar um jól og áramót vöktu eftirtekt og nokkra lukku. Hjördís Alfa hafði rétt áðan samband við Dreifarann og var óðamála: -Ég elska sumarið, þetta er sannkölluð gósentíð hjá okkur sem viljum spara við okkur.
Af hverju segirðu það Hjördís Alfa? -Nú fylgistu bara ekkert með?
Nei, ég reikna ekki með því. Hvað er í gangi? -Það er verið að opna N1 í Borgarnesi á morgun maður!!! Og svo er sjómannadagur bæði á laugardag og sunnudag!!!
Jæja. Og geturðu sparað eitthvað á því? -Get ég sparað?! Gvöð... já svo sannarlega get ég sparað. Við fjölskyldan ætlum á puttanum í Borgarnes strax um hádegið á morgun því hún Gunna frænka hringdi í mig áðan til að láta mig vita að það væru fríar vínarpylsur og fullt af einhverju svona fíneríi á boðstólnum.
En þú sparar nú varla mikið á einni pylsu? -Hver var að tala um eina pylsu elskan mín. Við nefnilega förum með pakka með okkur og svo fyllum við á pakkana, förum aftur og aftur í raðirnar skilurðu? Þá náttúrulega fáum við bara pylsu í brauði, ekki með sósum eða hráum en kannski steiktum lauk, það er hægt að safna honum í box án þess að útbía nokkuð pylsurnar og brauðin.
Er þetta nú ekki svolítið langt gengið Hjördís? -Láttu ekki svona, maður verður að bjarga sér eins og maður getur, það er ekki verið að gefa matinn... ja, nema þarna á morgun.
Ég skal nú segja þér það, en hvað, ætlarðu að leika sama leik á sjómannadaginn? -Já að sjálfsögðu. Báða dagana. Og svo er eitt sem er svo spennandi þá.
Nú, hvað er það? -Furðufiskarnir. Þeir liggja þarna sólbakaðir í einhverjum ískerum og bíða eftir að einhver grípi þá. Ég læt það ekki bregðast enda erum við fjölskyldan svo spennt að komast heim og grilla þá. Maður veit aldrei á hverju maður á von þegar maður skellir þessum furðufiskum á grillið. Já, það verður dýrindis veisla hjá okkur um helgina, bara eins og hjá forsetanum.
Jahá, og svo eru framundan Lummudagar og Fiskidagurinn mikli. -Já, minnstu ekki á það, þetta er alveg yndislegt, yndislegt líf.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.